Umhverfing nr 4: myndlistarsýning 120 listamanna á Vestfjörðum næsta sumar

Næsta sumar er fyrirhugað að halda myndlistarsýninguna Umhverfing víðs vegar á Vestfjörðum og í Dölunum. Þetta verður fjórða sýningin sem efnt er til af þessu tagi frá 2017. Fyrri sýningar hafa verið á Norðurlandi, Austurlandi og Snæfellsnesi.

Marmið verkefnisins nr. 4 Umhverfing er ferðalag um Dali, Strandir og Vestfirði til að kynna menningu og náttúru með myndlist á hefðbundnum og óhefðbundum sýningastöðum og í samstarfi við nærsamfélagið á hverjum stað og skapa umræðu um tilgang lífs og lista. Grunnhugmyndin er að sýna verk eftir myndlistarmenn sem búa eða eiga ættir eða tengsl að rekja til þessa landshluta.

Akademía skynjunarinnar stendur að menningarverkefninu Umhverfing. Forsvarsmenn Akademíunnar eru Anna Eyjólfs, Ragnhildur Stefánsdóttir og Þórdís Alda Sigurðardóttir. Þær eru jafnframt skipulags og verkefnastjórar verkefnisins
ásamt Jóni Sigurpálssyni. myndlistarmanni á Ísafirði.

Grunnhugmyndin er að sýna verk eftir myndlistarmenn sem búa í eða eiga ættir að rekja til þess landshluta sem sýnt er í hverju sinni og að þeir myndlistarmenn séu virkir í sköpunarstarfi sínu, eða hafi verið það séu menn látnir. Markmið verkefnisins UMHVERFING er að ferðast umhverfis landið og kynna myndlist í óhefðbundum sýningarrýmum í samstarfi við heimamenn á hverjum stað og skapa umræðu um tilgang lífs og lista.

Sýningarnar eru settar upp í samstarfi við heimamenn á hverjum stað.
Nr. 4 Umhverfing verður kynnt í fjölmiðlum, á samfélagsmiðlum og á heimasíðum þeirra sem koma að sýningunni. Boðið verður upp á fyrirlestra, samræður, listaverkagöngur og hópferðir milli sýningarstaðanna með leiðsögn. Hægt verður að lesa um listaverkin og listamennina í bók, bæklingi, á samfélagsmiðlum og á Appi.
Kort af staðsetningu listaverkanna verður útbúið bæði í prentuðum bækling og einnig á Google Map þar sem sjá má nákvæmari staðsetningu verkanna.

Komnir eru 120 myndlistarmenn á þátttökulistann og eiga þeir nær allir rætur að rekja til Vestfjarða, Stranda eða í Dalina.

Ólöf Dómhildur Jóhannsdóttir hefur óskað eftir heimild sveitarfélagsins til að setja upp verk við göngustíginn við Fjarðarstræti, við grjótgarðinn fær sjávarsíðunni. Verkið er hluti af sýningunni nr. 4 Umhverfing. Þá hefur Nina Ivanova óskað eftir heimild sveitarfélagsins til að mála tímabundið málverk beint á götur Ísafjarðarbæjar, milli Sindragötu og Suðurgötu, í júní árið 2022 sem yrði líka hluti af sýningunni.

Mynd frá síðustu sýningu, sem var á Snæfellsnesi 2019.

DEILA