Tálknafjörður: vill kanna sameiningu 8 sveitarfélaga á Vestfjörðum

Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps telur eðlilegt að leita eftir afstöðu þeirra sveitarfélaga sem eru líkleg til að þurfa að taka tillit til nýrra ákvæða sveitarstjórnarlaga fyrir árið 2026, þ.e.
Árneshrepps
Bolungarvíkurkaupstaðs
Kaldrananeshrepps
Reykhólahrepps
Strandabyggðar
Súðavíkurhrepps
Vesturbyggðar

til sameiningar í eitt sveitarfélag.

Í bókun sveitarstjórna í síðustu viku segir að sameinist þessi sveitarfélög í eitt verði til rúmlega 3.300 íbúa sveitarfélag með nokkra byggðakjarna, sem hefur betri forsendur til að berjast fyrir hagsmunum íbúa og takast á við krefjandi verkefni.

Sveitarstjórnin samþykkti samhljóða að fela sveitarstjóra að senda ofangreindum sveitarfélögum erindi og óska eftir afstöðu sveitarstjórna til þess að hefja óformlegar viðræður sveitarfélaganna. Óskað er eftir afstöðu sveitarstjórna til erindisins fyrir 20. janúar 2022.

Heimastjórnir forsenda sameiningar

Að mati sveitarstjórnar eru forsendur þess að landstórt sveitarfélag með fjölda byggðakjarna geti orðið sterk eining að settar verði á fót heimastjórnir á sambærilegum forsendum og í Múlaþingi.

Einn hreppsnefndarmanna, Ingibjörg Ósk Þórhallsdóttir, telur fráleitt að leita út fyrir sunnanverða Vestfirði eftir sameiningu og þiggja ætti boð Vesturbyggðar um sameiningu. En hún bókaði að „Þrátt fyrir afstöðu mína virði ég skoðanir þeirra sem vilja leita á miðin og kanna fleiri sameiningarkosti. Bréf það sem um er rætt verður vonandi til þess að íbúar og sveitarstjórn fái skýrari mynd af stöðunni.“

Í bréfi sveitarstjóra Ólafs Þórs Ólafssonar til sveitarfélaganna sjö segir:

„Gróf tímalína viðræðna gæti verið á þá leið að fyrsti fundur fari fram nálægt mánaðarmótum febrúar og mars 2022 með það að markmiði að frambjóðendur og íbúar geti rætt mögulega sameiningarvalkosti í sveitarstjórnarkosningum sem fara fram vorið 2022. Að afloknum sveitarstjórnarkosningum geta nýjar sveitarstjórnir tekið afstöðu til þess hvort sameiningarviðræður verði formlegar á grundvelli sveitarstjórnarlaga, sem hefur það í för með sér að íbúar fái tækifæri til að kjósa um sameiningartillögu á næsta kjörtímabili.“

Miðað við reglur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um stuðning við sameiningu sveitarfélaga má ætla að 2 milljarða króna framlag fengist til sameiningarinnar.

Að undanförnu hefur RR ráðgjöf unnið að könnun á sameiningarvalkostum fyrir Tálknafjörð og hefur m.a. haldið íbúafundi þar sem kynntir hafa verið fimm valkostir. Afgerandi meirihluti þátttakenda á íbúafundi sagðist vilja að Tálknafjarðarhreppur hefji sameiningarviðræður.

DEILA