Skipting tekna hins opinbera af fiskeldi

Uppbygging atvinnugreinarinnar fiskeldis skiptir miklu máli fyrir samfélagið allt á Vestfjörðum. Hér er um að ræða eitt stærsta tækifæri til jákvæðrar þróunar byggðar á svæðinu í áratugi og getur þessi atvinnugrein ásamt sjávarútvegi og ferðaþjónustu skotið styrkari stoðum undir atvinnulíf og samfélag.

Framkvæmdir sem nú eru komnar af stað og eru á Samgönguáætlun næstu árin og uppbygging í ferðaþjónustu og fiskeldi geta, ef vel tekst til, gerbreytt byggðaþróun á Vestfjörðum. 

Samfélagssáttmáli í fiskeldi

Til að stilla saman strengi allra sem að málum koma hafa sveitarfélögin á Vestfjörðum sammælst um að gera samfélagssáttmála í fiskeldi á Vestfjörðum. Um er að ræða fyrsta skref sem sveitarfélögin á norðanverðum og sunnanverðum Vestfjörðum ásamt Strandabyggð hafa sammælst um og í framhaldinu er gert ráð fyrir aðkomu fyrirtækja á svæðinu og ríkisins að verkefninu.

Leiðarljós samfélagssáttmálans eru að nærsamfélögin njóti ávinnings af fiskeldisuppbyggingu og starfsemi. Að fiskeldi á Vestfjörðum sé stundað í sátt við umhverfi og samfélag og lúti ströngustu umhverfiskröfum, sé vottað og byggi á langtímasýn. Jafnframt að unnið skuli að því að innviðir svæðisins tryggi fyrirtækjum samkeppnishæft umhverfi.

Sameiginleg markmið allra sem að sáttmálanum koma eru þau að á Vestfjörðum verði um 50 þúsund tonna sjálfbært fiskeldi, að auðlindagjöld renni til sveitarfélaganna og að hratt verði unnið að því að innviðir svæðisins svari kröfum atvinnulífs og samfélags.

Hin knýjandi þörf sem ýtir sveitarfélögunum saman til að gera samfélagssáttmála í fiskeldi er að við mótun umgjarðar atvinnugreinarinnar hefur lítið sem ekkert verið hlustað á sjónarmið þeirra. Sveitarfélögin á Vestfjörðum, sérstaklega sunnanverðu svæðinu, hafa talað fyrir daufum eyrum frá árinu 2008, um mikilvægi þess að eðlileg umgjörð verði sköpuð fyrir fiskeldisuppbygginguna þannig að sveitarfélögin hafi burði til að skapa samkeppnishæft umhverfi fyrir vaxandi atvinnulíf.

Umgjörð atvinnugreinarinnar er mótuð með lögum og reglugerðum settum á Alþingi íslendinga, framfylgt af stofnunum og eftirlitsaðilum. Ábyrgð á atvinnugreininni nær yfir nokkur ráðuneyti og of margar stofnanir. Yfirsýn er lítil og enn hefur ekki verið lokið við að móta heildarstefnu fyrir atvinnugreinina þar sem allir hagaðilar koma að borðinu og hafa rödd

Tekjur hins opinbera af fiskeldi

Í skýrslu KPMG sem unnin var fyrir Vestfjarðastofu fyrr á þessu ári var skattspor fiskeldisins skoðað meðal annars. Þar er gert ráð fyrir tekjuskatti starfsmanna, tryggingargjaldi, innheimtum gjöldum í Umhverfissjóð sjókvíaeldis og aðflutningsgjöldum sem öll fara til ríkisins. Greiðslur til sveitarfélaga eru útsvar starfsmanna, aflagjald, fasteignagjöld og aðrir skattar. Samkvæmt þeirri úttekt er áætlað skattspor fyrirtækja í fiskeldi á Vestfjörðum, þegar framleiðsla verður í hámarki (51 þús tonn), áætluð um 2,2 milljarðar króna sem skiptast nokkuð jafnt milli ríkis og sveitarfélaga. Taka verður þó fram að þegar skýrsla KPMG var unnin fyrr á árinu var ekki búið að útfæra hvernig framlögum fyrirtækja í fiskeldissjóð yrði háttað og þær greiðslur eru því ekki tilgreindar hér en ég mun fjalla um hann síðar.

Ég ætla að fara örstutt yfir þær greiðslur sem innheimtar eru af fyrirtækjum í fiskeldi til að standa undir uppbyggingu innviða, grunnrannsóknum og verkefnum til að takmarka umhverfisáhrif greinarinnar og síðan aflagjöld sem greidd eru til sveitarfélaga og eru í raun stærsti sjálfstæði tekjustofn sveitarfélaga vegna fiskeldisstarfsemi á svæðinu.

Umhverfissjóður sjókvíaeldis

Frá árinu 2015 hefur 860 milljónum króna verið úthlutað úr Umhverfissjóði sjókvíaeldis. Um 73% þess fjármagns hefur farið til Hafrannsóknarstofnunar en aðeins 4,9% styrkja fer til starfsemi á Vestfjörðum, í nærsamfélagi atvinnugreinarinnar, enn minna fer til Austfjarða og enga áherslu er að merkja hjá opinberum stofnunum að byggja upp starfsemi í nærumhverfi atvinnugreinarinnar.  Eðlilegt er og sjálfsagt að hluti umhverfissjóðs fari til grunnrannsókna og eftirlits sem Hafrannsóknarstofnun stundar – en ætti þá ekki að skilgreina það fjármagn og gera ekki öðrum að sækja í sama sjóð, þar sem í raun er búið að ákveða ráðstöfunina áður en umsóknir koma inn?

Aflagjöld

Aflagjaldið byggir á hafnarlögum þar sem lagt er til grundvallar löndun á villtum     fiski þar sem afla er landað. Þar koma inn megintekjur til sveitarfélaga af fiskeldi í núverandi löggjöf. Gjaldið endurspeglar ekki hvaðan fiskurinn kemur sem dælt er til slátrunar og gefur því eldissveitarfélaginu engar tekjur. Löggjöfin gerir ekki ráð fyrir slátrun í sláturprömmum sem myndi í raun gera að verkum að ekkert sveitarfélag fengi tekjur af fiskeldi. Engar tekjur eru heldur af notkun auðlindarinnar sem eru firðirnir. Mjög litlar tekjur koma af notkun hafna t.d. vegna þjónustubáta ofl.

Krafan er ekki að auka álögur á atvinnugreinina sem enn er í uppbyggingarfasa heldur að sanngjarn hluti tekna renni til uppbyggingar og viðhalds innviða sveitarfélaganna. Að sveitarfélög og svæði séu ekki sett í þá stöðu að berjast um bitlinga heldur séu leikreglurnar gagnsæjar og eðlilegar miðað við þá starfsemi sem raunverulega skapast kringum greinina. Að byggja gjaldtöku á aflagjaldi eru ekki eðlilegar leikreglur miðað við starfsemina.

Fiskeldissjóður

Fiskeldissjóður er sjálfstæður opinber sjóður sem hefur það hlutverk að styrkja uppbyggingu innviða þar sem fiskeldi í sjókvíum er stundað og þar með samfélög og stoðir atvinnulífs á þeim svæðum.

Í lögum um fiskeldissjóð er kveðið á um að hann lúti yfirstjórn þriggja manna sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn, einn samkvæmt tilnefningu forsætisráðherra, einn samkvæmt tilnefningu ráðherra sem fer með fjárreiður ríkisins og fjármál og einn án tilnefningar sem skal vera formaður.

Stjórn sjóðsins á árlega að auglýsa eftir umsókum frá sveitarfélögum um styrki úr sjóðnum til verkefna sem eru til þess fallin að byggja upp innviði og þjónustu á þeim svæðum þar sem fiskeldi í sjókvíum er stundað. Ráðstöfunarfé sjóðsins er fjárveiting hverju sinni af fjárlögum.

Fyrsta úthlutun sjóðsins var á þessu hausti. Um 105 milljónir voru til úthlutunar sem nánast allar voru greiðslur frá fyrirtækjum í fiskeldi á Vestfjörðum. Sveitarfélögum á Vestfjörðum var úthlutað 34 milljónum. 71 milljón var úthlutað til sveitarfélaga á Austurlandi.

Samband íslenskra sveitarfélaga ásamt Samtökum sjávarútvegssveitarfélaga sendu inn umsögn þegar frumvarp til laga um fiskeldissjóð og sögðst þar meðal annars „vilja ítreka fyrri kröfu um hlutdeild í tekjum hins opinbera af nýtingu sameiginlegra auðlinda. Það er með öllu óásættanlegt að hluti gjalds vegna nýtingar á eldissvæðum í sjó renni ekki beint til viðkomandi sveitarfélaga heldur fari allt gjaldið í ríkissjóð og sveitarfélög geti síðan sótt um styrki úr fiskeldissjóði. Slík aðferðafræði ýtir undir samkeppni milli sveitarfélaga og gerir þeim ókleift að skipuleggja uppbyggingu innviða til lengri tíma. Sjálfsagt og eðlilegt er að hluti auðlindaarðs renni til viðkomandi sveitarfélaga til uppbyggingar innviða á þeim svæðum sem nýtast við uppbyggingu fiskeldis.

Greiðslur í Fiskeldissjóð munu aukast mjög á næstu árum vegna þess að fyrstu árin er afsláttur vegna þróunarfasa greinarinnar sem rennur út fram til 2026. Áætlaðar greiðslur fiskeldisfyrirtækja á Vestfjörðum árið 2022 eru um 300 milljónir króna en munu aukast og gætu árið 2026 verið komnar í 1,4 milljarða króna ef framleiðslan fer í 50 þúsund tonn.  Samkvæmt lögum á um þriðjungur Fiskeldissjóðs að renna til sveitarfélaganna með úthlutun.

Til að setja tölur í samhengi kemur fram að tekjur A hluta fiskeldissveitarfélaganna sem standa að samfélagssáttmála um fiskeldi á Vestfjörðum voru á síðasta ári 8,3 milljarðar króna og veltufé frá rekstri var 505 milljónir króna. Þetta er það sem sveitarfélögin eiga eftir eins og staðan er til að greiða afborganir af lánum og uppbyggingu.

Sveitarfélögum er gert að sækja um styrki árlega til uppbyggingar innviða sinna. Þeim er gert að keppa við nágrannasveitarfélögin og sveitarfélög á öðrum landsvæðum. Hvernig eiga þau að vinna fjárhagsáætlanir til lengri tíma eða fara í stærri framkvæmdir? Allt við þetta fyrirkomulag er niðurlægjandi fyrir sveitarfélögin.  Hvernig má það vera að þriggja manna nefnd ráðherravalinna einstaklinga telst betur til þess fallin að meta hvað gera þarf til að byggja upp innviði sveitarfélaganna en kjörnum fulltrúum þeirra? 

Er rétt gefið?

Fiskeldi er atvinnugrein sem skilaði ríflega 29 milljörðum í útflutningstekjur á síðasta ári og framleiðslan á Vestfjörðum mun við fulla framleiðslu sem heimildir eru fyrir skila um 46 milljörðum í útflutningstekjur. Það er þess vegna dapurlegt að þrátt fyrir að uppbygging fiskeldis sé tiltekin í stjórnarsáttmála þeirrar ríkisstjórnar sem setið hefur síðustu fjögur ár hefur ekki verið mótuð heildstæð stefna fyrir atvinnugreinina.

Stuðningur ríkisvaldsins við uppbyggingu atvinnugreinarinnar er í engu samræmi við mikilvægi hennar og þegar borið er saman við stór atvinnutengd verkefni í öðrum landshlutum má spyrja hvort hægri höndin viti ekki hvað sú vinstri gerir. Í lögum um byggðaáætlun er kveðið á um að meginmarkmið sé að jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu, jafna lífskjör og stuðla að sjálfbærri þróun byggðarlaga um lands allt. Sérstaka áherslu skal leggja á svæði sem búa við langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf. Hvar eru þessi markmið þegar hugað er að umgjörð fyrir þessa atvinnugrein sem skiptir svæðin lengst frá höfuðborgarsvæðinu svona miklu máli?

Í raun er það svo að með núverandi regluverki hefur ríkið sett á sig bæði belti og axlabönd með umtalsverðri gjaldtöku af vaxandi atvinnugrein en skilið sveitarfélögin eftir með alla áhættu af samfélagslegri uppbyggingu sem þarf að eiga sér stað eigi atvinnugreinin að hafa þau byggðalegu áhrif sem hún hefur alla burði til.

Rétt er að taka fram að hér er ekki farið fram á neina ölmusu eða sértækar aðgerðir. Það er gríðarlega mikilvægt að vel takist til við uppbyggingu þessarar atvinnugreinar og að áhrif hennar á þróun byggðar verði jákvæð. Við erum einfaldlega að tala um að við mótun umgjarðar og regluverks sé horft til sanngirni og þess að hægt sé að byggja sjálfbær samfélög um allt land sem eru aflstöðvar þekkingar landi og þjóð til heilla.

Úrdráttur úr erindi undirritaðrar á ráðstefnunni Lagarlífi 28. október 2021. Allt erindið og glærur má finna á vef Vestfjarðastofu www.vestfirdir.is

Sigríður Ó. Kristjánsdóttir
framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu

Glærur Sigríðar eru hér.

Fyrirlestur Sigríðar má finna hér.

Facebook Notice for EU! You need to login to view and post FB Comments!