Ríkið sýknað af kröfu um skaðabótaábyrgð vegna úthlutunar byggðakvóta á Þingeyri

Frá Þingeyrarhöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Nú í október 2021 féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem ríkið var sýknað af kröfu Útgerðarfélagsins Otur ehf og Sigluness hf bæði til heimilis á Þingeyri um skaðabótaábyrgð á tjóni sem stefnendur urðu fyrir vegna úthlutunar 500 þorskígilda byggðakvóta Þingeyrar í Ísafjarðarbæ fiskveiðiárin 2018/2019 til og með 2023/2024, auk málskostnaðar.

Kærendur sóttur um byggðakvóta árið 2018 en stjórn Byggðastofnunar úthlutaði kvótanum til sex ára til Íslensks sjávarfangs ehf. Ákvörðunin var kærð í september 2018 til Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins sem stjórnsýslukæra. Ráðuneytið staðfesti ákvörðun Byggðastofnunar 22. júní 2020.

Kærendur voru ósáttir við niðurstöðuna og ákváðu að bera hana undir dómstóla og fá viðurkenndar skaðabætur.

Áttu skip, vinnsluhús og meiri kvóta

Stefnendur vísa til þess að áform þeirra um útgerð, vinnslu sjávarafurða og aðra starfsemi hafi verið skýr og skilmerkileg bæði í umsókn og síðari samskiptum við starfsmenn Byggðastofnunar, enda hafi engar athugasemdir verið gerðar við þau. Þegar umsókninni var skilað hafi stefnendur átt varanlegar aflaheimildir sem námu tæplega 800 þorskígildistonnum. Stefnendur hafi verið og séu með línu-og handfærabáta skráða á Þingeyri og eigi sérhannað 820 m² nýlegt fiskvinnsluhús á Þingeyri sem sé vel tækjum búið með kælum og frystum sem tæki ekki meira en örfáa daga að koma í notkun. Allar lagnir séu til staðar fyrir vatn og rafmagn fyrir fiskvinnslutæki.

Við blasi mikilvægi þess að aflaheimildirnar færu til fiskiskipa sem gerðu út frá Þingeyri og að aflinn yrði unnin þar.

Stefnendur vísa til þess að til samanburðar eigi Íslenskt sjávarfang ehf. hvorki báta né veiðarfæri og engar aflaheimildir. Félagið sé ekki með lögheimili á Þingeyri heldur í Kópavogi. Mótframlag félagsins hafi komið frásmábátaeigendum sem eigi ekki varanlegar aflaheimildir heldurhafi fengið byggðakvóta frá Fiskistofu. Ákvörðunin hafi einnig beinlínis farið þvert gegn tilgangi hins sértæka byggðakvóta þar sem honum sé og verði nánast alfarið landað utan Vestfjarða í tilviki Íslensks sjávarfangs ehf. Félagið hafi ekki staðið við samkomulagið um aukna byggðafestu á Þingeyri, dags. 24. apríl 2015, hvorki við að halda uppi heilsársvinnu fyrir a.m.k. 30 manns á samningstímanum né að vinna úr að lágmarki 2.000 þorskígildistonnum á ári í fiskvinnslu félagsins á Þingeyri. Stefnendur vísa til þess að með því að semja á ný við Íslenskt sjávarfang ehf. hafi Byggðastofnun í raun verið að leggja blessun sína yfir þá ólögmætu framkvæmd sem viðgekkst við nýtingu hins sértæka byggðakvóta fiskveiðiárin 2014–2017. Nefna stefnendur sérstaklega að Stefán Egilsson,atvinnurekandi á Þingeyri, sem á skipið Egil ÍS-77, og hefur fengið hluta af hinum sértæka byggðakvóta í samstarfi við Íslenskt sjávarfang ehf. ,hafi ítrekað kvartað yfir framferði fyrirtækisins, m.a. vegna óheiðarleika og vanskila, sem hafi leitt til þess að hann hafi hætt að landa hjá fyrirtækinuum eins og hálfs árs skeið.

Áframhaldandi samstarf trúverðugara

Ríkið mótmælti alfarið fullyrðingum stefnenda um að ákvörðun Byggðastofnunar um úthlutun sértæks byggðakvóta á Þingeyri hafi verið ólögmæt og haldin verulegum annmörkum sem varði bótaskyldu stefnda í málinu. Ríkið hafnaði því alfarið að Íslenskt sjávarfang ehf. hafi ekki staðið við samkomulag um aukna byggðafestu á Þingeyri frá 24. apríl 2015. Á Þingeyri hafi verið full vinnsla af hálfu núverandi samningsaðila um sértækan byggðakvóta og þrátt fyrir að samningsaðilarnir hafi ekki landað öllum afla á Þingeyri hafi afli verið fluttur þangað og unninn innan vinnusóknarsvæðis Þingeyrar.

Ríkið segir í málsvörn sinni að Byggðastofnun hafi metið það svo að það samstarf um vinnslu sértæks byggðakvóta á Þingeyri sem verið hafði frá árinu 2015 væri trúverðugra en áætlanir stefnenda um uppbyggingu vinnslu á Þingeyri í húsi þar sem fiskvinnsla hafði ekki verið starfrækt árum saman. Sú ákvörðun hafi verið byggð á málefnalegum sjónarmiðum og ekki falið í sér brot á jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga. Þá var það mat sérfræðinga Byggðastofnunar að það væri ekki vænleg leið að dreifa sértæka byggðakvótanum á fleiri umsækjendur en einn þar sem slíkt myndi síður stuðla að markmiði um heilsársvinnslu á Þingeyri.

Kröfum umskaðabætur var hafnað þar sem stefnendur hafi ekki leitt því nægum líkum að því að þeir hafi orðið fyrir tjóni og hafi ekki skýrt það skilmerkilega í stefnu.

Reynslan af íslensku sjávarfangi vel viðunandi

Í úrskurðarorðum dómsins segir að verður ekki annað ráðið en að umsókn stefnenda hafi verið tekin alvarlega og farið hafi fram heildstæður samanburður á umsækjendum. Fjárhagsstaða stefnenda var talinn traustari og stefnendur höfðu yfir að ráða aflaheimildum sem skráðar voru á báta sem gerðir voru út frá Þingeyri. Reynsla Íslensks sjávarfangs ehf. af fiskvinnslu á Þingeyri lá hins vegar fyrir. Þó að hún væri ekki hnökralaus þá var hún talin vel viðunandi,ekki síst ljósi þess hve rekstur fiskvinnslu gengur erfiðlega víða um land. Íslenskt sjárvarfang ehf. hafði yfir að ráða betra fiskvinnsluhúsi og hafði náð að tryggja sér nægjanlegan flutning á afla til vinnslu á Þingeyri. Niðurstaðan úr þessum samanburði var sú að hafna umsókn stefnenda. Verður ekki fallist á að við þá ákvörðun hafi skort á að byggt væri á heildstæðum samanburði á umsækjendum.

Kröfu stefnenda var hafnað en málskostnaður felldur niður.

DEILA