Reykhólar: sveitarstjórn samþykkir vegsvæði í landi Teigsskógar og Þórisstaða

Þ-H leiðin, kennd við Þórisstaði og Hallsteinsnes.

Vegagerðin hefur fengið samþykkt erindi sitt til sveitarstjórnar um stofnun vegsvæðis í landi jarðanna Teigsskógur og Þórisstaðir. Það er nauðsynlegt svo unnt verði að leggja veg samkvæmt Þ-H leið sem samþykkt hefur verið að leggja.

Á fimmtudaginn var erindið tekið fyrir og samþykkt með þremur atkvæðum af fimm. Tveir sátu hjá. Það voru Ingimar Ingimarsson og Karl Kristjánsson fyrrverandi oddvitar sveitarstjórnar, sem á sínum tíma lögðust hart gegn þessari veglínu og vildu aðra um Reykhóla, svonefndar R leið. Sú leið naut stuðings Skipulagsstofnunar en er lengri, var metin með lakara umferðaröryggi og kostaði um 6 milljörðum króna meira en Þ-H leiðin. Deilur um þessa leið töfðu lokaákvörðun í sveitarstjórn um 2 ár.

DEILA