Patreksfjörður: Fjölval verður opnuð aftur á fimmtudaginn

Hópsmitin á Patreksfirði hafa áhrif á starfsemi verslunarinnar Fjölval. Starfsmaður verslunarinnar hefur greinst með Covid smit og fara allir starfsmenn verslunarinnar í test í fyrramálið og hafa verið settir í sóttkví þar til niðurstaða liggur fyrir.

Samkvæmt nýjustu upplýsingum er starfsfólkið sem hefur umgengist hvert annað frá síðasta föstudag komið í sóttkví fram á laugardag. Búðin verður lokuð á morgun, miðvikudag.

Haukur Már Sigurðsson eigandi Fjölvals segir að fundin verði lausn á mönnum búðarinnar þannig að unnt verði að opna á fimmtudaginn.

„Við gætum þurft að kalla til aðstoð frá einstaklingum sem eru ekki í sóttkví til að halda búðinni opinni, þar sem við erum nánast öll úr leik. Sjái einhverjir sér fært að aðstoða, vinsamlegast látið vita með kommenti hér á síðunni.“

Haukur Már segir að það sem verið er að hugsa er eftirfarandi:

„Að verslunin verði opin 3 til 4 tíma á dag. Og að öll afgreiðsla fari fram í gegnum búðina en ekki með heimsendingum frá búðinni, það mun þýða að allir þurfa að hjálpast að og fara í verslun fyrir þá sem eru í sóttkví og eða þá sem almennt eiga ekki heimangengt. Við munum ekki hafa mannskap til að taka við símtölum, taka til pantanir og keyra út, það er því miður staðan.“