Nýtt yfirbyggt tengivirki í Breiðadal í undirbúningi

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar hefur fengið deiliskipulagstillögu frá Landsneti, vegna fyrirhugaðra framkvæmda við nýtt yfirbyggt tengivirki á lóð 1, í landi Veðrarár-Ytri í Önundarfirði og verður það staðsett við hlið núverandi tengivirkis.

Markmið framkvæmdarinnar er að bæta afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum. Leggur nefndin til við bæjarstjórn að heimila málsmeðferð á tillögunni.

Framkvæmdin er í framkvæmdahluta (2021-2023) Kerfisáætlunar 2020-2029, sem hefur verið samþykkt af Orkustofnun, og er hluti af endurnýjunaráætlun Landsnets.

Í janúar 2020 sló rafmagni út á Vestfjörðum og helsta ástæða þess að rafmagn var jafn lengi úti var selta í tengivirki í Breiðadal í Önundarfirði. Með nýju yfirbyggðu tengivirki verður komist fyrir þennan vanda.

Breiðadalslína 1 liggur að tengivirkinu að vestan og Bolungarvíkurlína 1 og Ísafjarðarlína 1 liggja frá því til norðurs. Allar línurnar eru 66 kV loftlínur á vegum Landsnets. Ennfremur liggja jarðstrengir frá tengivirkinu um skipulagssvæðið en það eru háspennulínur á vegum Orkubús Vestfjarða.

Niðurstaða umhverfismats fyrir framkvæmdina er sú að framkvæmdir hafa óveruleg neikvæð áhrif en geta haft verulega jákvæð áhrif.

Facebook Notice for EU! You need to login to view and post FB Comments!