Laxeldi: grunur um blóðþorra í laxi á Austurlandi

Frá Reyðarfirði.

Í tilkynningu frá Löxum ehf á Austurlandi segir að rökstuddur grunur sé um ISA (blóðþorra) í einni kví Laxa fiskeldis í Reyðarfirði.

Fram kemur einnig að Matvælastofnun, MAST, hafi staðfest að rökstuddur grunur sé um að ISA veira sé í einni kví í sjókvíum Laxa fiskeldis á stöðinni Gripalda.  Fyrirtækið hefur einangrað stöðina og unnið er að því að taka út allan fisk sem er í viðkomandi kví.  Allar aðgerðir og áframhaldandi aðgerðir eru unnar í nánu samstarfi og eftir fyrirmælum MAST.

Í frétt Matvælastofnunar um málið segir að ef sú greining sem nú liggur fyrir reynist rétt með staðfestingarprófum sé þetta í fyrsta sinn sem sjúkdómsvaldandi afbrigði ISA-veirunnar greinist í laxi hér á landi.

ISA-veiran uppgötvaðist við krufningu og sýnatöku í kjölfar vaxandi óútskýrðra affalla í kví G7. Ákvörðun hefur verið tekin um að aflífa lax úr viðkomandi kví við fyrsta tækifæri og farga úrgangi með tryggum hætti. Lax sem alinn er í öðrum kvíum á eldissvæðinu virkar heilbrigður, fóðrun eðlileg og vöxtur góður. Fiskur í nágrannakvíum verður settur undir hert eftirlit og skimanir af öryggisástæðum segir á vef Mast.

Matvælastofnun hefur í varúðarskyni sett dreifingarbann á starfsstöð fyrirtækisins við Gripaldi í Reyðarfirði sem mun gilda þar til slátrað hefur verið úr sjókvíunum og svæðið sett í hvíld.

Frá því fyrsta tilfelli blóðþorra var staðfest í Noregi árið 1984 hefur veiran einnig valdið klínískum sjúkdómi hjá fjölmörgum öðrum laxeldisþjóðum.

Veiran er skaðlaus mönnum og berst ekki með fiskafurðum.

DEILA