Hólmavík: 114 tonna afli í september og október

Alls var landað 114 tonnum af bolfiski í Hólmavíkurhöfn í september og októbermánuðum. Mest veiddist á línu eða um 88 tonn. Hlökk ST var aflahæst með 66,5 tonn, en Hilmir ST var einnig á línuveiðum. Hafbjörg ST var á netum og landaði 16 tonnum. Fjórir bátar voru á handfæraveiðum og lönduðu þeir 9 tonnum samtals.

Þrír handfærabátar lönduðu tæplega 9 tonnum í Norðurfirði á tímabilinu. Guðni Sturlaugsson ST var aflahæstur þeirra með 4,5 tonn.

Á Drangsnesi bárust 165 tonn í september og október. Samtals var aflinn í Strandasýslu þessa tvo mánuði nærri 300 tonn.

Auk botnfiskaflans var landað í byrjun október 190 tonnum af erlendri rækju á Hólmavík.