Gramsverslun á Þingeyri

Þingeyri.

Vallargata 1 á Þingeyri sem í daglegu tali er kallað Gramsverslun er hús sem byggt var árið 1890.
Ísafjarðarbær eignaðist húsið árið 2004 á uppboði en það var áður þinglýst eign þrotabús Rauðsíðu ehf.

Byggingarár Vallargötu 1 er 1890 samkvæmt fasteignaskrá. Grunnflötur hússins er um 137 fermetrar, heildargólfflötur um 350 fermetrar og brúttórúmmál þess er 904 rúmmetrar, samkvæmt sömu heimildum.
Húsið er tvær hæðir og ris, byggt úr timbri og klætt að utan með bárujárni, veggir og þak.
Botnplata er steypt en milligólf eru úr timbri, bitar og klæðning.

Á síðasta fundi bæjarráðs Ísafjarðarbæjar var lagt fram minnisblað Axels Rodriguez Överby, sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs, dagsett 4. nóvember 2021, ásamt ástandsskoðun Tækniþjónustu Vestfjarða dags. 29. sept. sl. Þar er lagt til við bæjarráð að fasteignin verði seld eða afhent áhugasömum aðilum til uppgerðar.

Í umsögn sviðsstjóra segir að niðurstöður ástandsskoðunar séu þær að ástand hússins sé mjög bágborið og brýn þörf á miklu viðhaldi/endurbótum. Í ástandsskoðun er lagt lauslegt mat á kostnað og er hann áætlaður um 71,2 m.kr. leiða má að því líkum að þessi kostnaður geti verið umtalsvert hærri m.t.t. þess að allir gluggar og frágangur er sérsmíði.
Með hliðsjón af ástandi hússins og kostnaði við endurgerð, þá er það mat sviðsstjóra að það séu brýnni verkefni hjá eignasjóði sem snúa að íþrótta- og skólamannvirkjum en endurgerð Gramsverslunar. Með hliðsjón af framangreindu er lagt til við bæjarráð að auglýsa eftir áhugasömum aðilum til þess að taka mannvirkið yfir, fyrirkomulagið getur verið með því móti að selja fasteign/afhenda með kvöðum um viðhald.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að yfirfara framtíðarsýn varðandi staðsetningu hússins og framtíðarnotkun hússins í samráði við hverfisráðið íbúasamtökin Átak á Þingeyri.

DEILA