Góður þriðji ársfjórðungur hjá Arctic Fish – hagnaður 1,8 milljarðar króna

Afkoma laxeldisfyrirtækisins Arctic Fish á þriðja ársfjórðungi 2021 var góð og fyrirtækið hefur nú slátrað meira á yfirstandandi ári en félagið hefur áður slátrað á heilu ári. Fyrstu 9 mánuði ársins hefur félagið slátrað 8.542 tonnum og gert er ráð fyrir að uppskera þessa árs verði um 11.500 tonn.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Arctic Fish.

Framlegð af eldinu var um 159 kr. á selt kíló (10,5 NOK) á fjórðungnum og er það besta framlegð á kíló sem náðst hefur innan fjórðungs á árinu. Framlegðin hefur aukist um 9% frá fyrri fjórðungi. Framlegð á fjórðungnum var rúmlega 400 milljónir króna og er það 180 milljónum krónum hærri framlegð en á öðrum ársfjórðungi.  Samanlögð framlegð fyrstu þrjá ársfjórðunga ársins 2021 er um 1,7 milljarðar króna og hagnaður félagsins á sama tíma 1,8 milljarður króna.

Helsta ástæða góðrar afkomu er hátt verð á laxi. Meðalskilaverð á seldum afurðum var um 825 kr. á kíló og salan í ársfjórðungnum nam um 2,4 milljarði króna. Heildarvelta fyrstu þriggja ársfjórðunganna er um 6,4 milljarðar króna.

DEILA