Flatabikarinn: Bolvíkingar bikarmeistarar

Bikarkeppnin í tölvuleiknum League of Le­g­ends, Flata­bik­ar­inn, fór fram um helg­ina og var úr­slitaviður­eignin spiluð í fyrradag.

UMFB og XY Esports mættust í úrslitaseríu þar sem það lið sem yrði fyrr til að vinna þrjá leiki yrði bikarmeistari.

XY voru taplaus á mótinu og héldu þeirri stefnu í fyrsta leik þar sem XY sigruðu. UMFB svaraði um hæl og sigruðu næstu tvo leiki en töpuðu svo þeim fjórða. Það þurfti því hreinan úrslitaleik til sem UMFB sigraði örugglega og stóð uppi sem bikarmeistarar.

Ísfirðingurinn Kjartan Daníel Helgason, sem spilar undir leikheitinu IcelandicHero, var að vonum mjög sáttur við sigurinn.  „Ég er mjög ánægður með að fá tækifæri til þess að spila fyrir hönd UMFB og standa fyrir Vestfirði í efstu deild League of Legends á Íslandi.“ sagði Kjartan.

Kjartan ásamt tveimur öðrum leikmönnum í liði UMFB spiluðu frá Bandaríkjunum þar sem þeir stunda nám og spiluðu því með mun hærra ping (svartíma) heldur en aðrir á mótinu þar sem að keppt var á evrópskum server (EU west).  Það þýðir að viðbragðstími aðgerða þeirra var hæg­ari en hjá öðrum og get­ur það skipt sköp­um í leikj­um eins og League of Legends.


League of Legends er einn stærsti tölvuleikur heims en heims­meist­ara­mótið í leiknum fór fram fyrr í mánuðinum í Laug­ar­dals­höll­inni og stóð yfir í rúm­an mánuð. EDw­ard Gaming stóðu þar uppi sem sig­ur­veg­ar­ar og eru því heimsmeistarar í League of Le­g­ends, verðlaunafé mótsins var um 2.2 milljónir dollara eða um 290 milljónir íslenskra króna.