Fiskeldi: Útflutningsverðmæti ársins þegar orðð meira en í fyrra – 13% af sjávarafurðum

Útflutningsverðmæti eldisafurða á fyrstu 10 mánuðum ársins er nú þegar orðið meira en það var í fyrra, sem var metár. Þetta kom í ljós í gær þegar Hagstofan birti fyrstu tölur um vöruskipti í október. Samkvæmt þeim nam útflutningsverðmæti eldisafurða um 3,5 milljörðum króna i október og hefur það aldrei áður verið meira í þeim mánuði. Miðað við október í fyrra er aukningin um þriðjungur í krónum talið. Gengi krónunnar var um 7% sterkara nú í október en í sama mánuði í fyrra og er aukningin því nokkuð meiri í erlendri mynt, eða sem nemur 42%.

Þetta kemur fram í fréttabréfi SFS, samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Komið yfir 30 milljarða
Á fyrstu 10 mánuðum ársins er útflutningsverðmæti eldisafurða komið í 30,5 milljarða króna. Það er um 35% aukning frá sama tímabili í fyrra á föstu gengi. Hefur útflutningsverðmæti eldisafurða aldrei áður verið meira á tímabilinu og er nú þegar orðið meira en það hefur áður verið á heilu ári. Er útflutningsverðmæti eldisafurða 5% af heildarverðmæti vöruútflutnings á tímabilinu en tæp 13% af útflutningsverðmæti sjávarafurða. Þessi hlutföll hafa aldrei áður veri hærri.


DEILA