Björgunarmiðstöð á Patreksfirði

Björgunarsveitin Blakkur, Vesturbyggð og Heilbrigðisstofnun Vestfjarða hafa undirritað viljayfirlýsingu um byggingu björgunarmiðstöðvar á Patreksfirði

Aðilar samningsins munu með verkefninu leitast við að sameinast um byggingu nýrrar björgunarmiðstöðvar á Patreksfirði.

Í miðstöðinni er gert ráð fyrir að pláss verði fyrir tæki og búnað björgunarsveitarinnar, slökkviliðs og sjúkraflutninga auk aðstöðu til að geyma annan búnað, búningsklefa og önnur rými sem tilheyra.

Hluti stoðrýma verður sameiginlegur með aðilunum þremur. Þá verði í húsinu aðstaða fyrir stjórnun neyðaraðila; svæðisstjórn, aðgerðastjórn og vettvangsstjórn.

Fyrirliggjandi drög að þarfagreiningu gera ráð fyrir húsi með 1000 fm. grunnflöt og tvær hæðir að hluta. Kostnaður við framkvæmdina og eignarhlutur verður samkvæmt nánara samkomulagi. Kostnaður við undirbúning verði einnig samkvæmt nánara samkomulagi. Viljayfirlýsingin er undirrituð með fyrirvara um fjármögnun á framkvæmdinni af hálfu allra aðila.

Hver aðili viljayfirlýsingarinnar skal tilnefna einn fulltrúa í undirbúningsnefnd og skal Vesturbyggð tilnefna einn fulltrúa til viðbótar sem stýrir vinnunni. Undirbúningsnefnd skal halda fundargerðir og skila stuttum greinargerðum 1. febrúar og 1. apríl 2022.

DEILA