13 Íslandsmeistaratitlar hjá Skotíþróttafélagi Ísafjarðar

Félagar í Skotíþróttafélagi Ísafjarðar unnu um helgina til 13 Íslandsmeistaratitla í skotfimi af 50 metra færi með riffli.

Keppt var í tveimur greinum, annars vegar þar sem skotið var liggjandi og hins vegar í þrístöðu, en þá er skotið í hnéstöðu,standandi og liggjandi. Notuð voru 60 skot í hvorri grein.

Keppt var í fyrri greininni í Digranesi, aðstöðu Skotíþróttafélags Kópavogs og í þeirri seinni var keppt í Egilshöll í Reykjavík þar sem Skotíþróttafélag Reykjavíkur hefur aðstöðu.

Valur Richter, formaður Skotís segir það mögulega vera Íslandsmet hjá skotfélagi. „Það er alveg óhætt að segja að félagar í SKOTÍS séu með þeim bestu á landinu og Skotís sé að verða eitt öflugasta skotfélag á landinu“ sagði Valur við Bæjarins besta.

Bára Einarsdóttir setti nýtt Íslandsmet 618.3 stig í liggjandi keppninni og varð Íslandsmeistari í sínum floķki í báðum keppnisgreinunum og einnig í liðakeppni kvenna. Karen Rós Valsdóttir varð einnig þrefaldur Íslandsmeistari. Elín Andrea Vikse Helgadóttir varð einnig Íslandsmeistari í sinum flokki og í liðakeppni. Kvennaliðið var skipað Báru Einarsdóttur, Karen Rós Valsdóttur og Elínu A.V. Helgadóttur.

Karlalið Skotís varð í 1. sæti , en það skipuðu Guðmundur Valdimarsson, Valur Richter og Leifur Bremnes og þar með Íslandsmeistari í liða keppni og bræðurnir Leifur Bremnes og Ingvar Bremnes urðu Íslandsmeistarar í sinum flokki. Einnig náði Guðmundur Valdimarsson 2. sæti í einstaklingskeppni og Leifur Bremnes 3. sætinu.

DEILA