Verkefnisstjórafundur Brothættra byggða

Verkefnisstjórar Brothættra byggða og sambærilegra byggðaþróunarverkefna komu saman til fundar í húsakynnum Byggðastofnunar dagana 12. og 13. okt. sl. Ánægjulegt var að hópurinn gat loksins hist á staðfundi eftir langan tíma eftir takmarkanir vegna COVID-19. 

Aðalsteinn Þorsteinsson forstjóri Byggðastofnunar kynnti hlutverk og starfsemi Byggðastofnunar. Fundargestum gafst færi á að kynnast nánar lánamöguleikum Byggðastofnunar, ýmissi þróunarvinnu á sviði byggðamála s.s. þróun mælaborða um byggðatengd málefni og aðgerðaáætlun byggðaáætlunar stjórnvalda.

Dr. Hólmfríður Sveinsdóttir hélt áhugavert erindi sem hún nefndi Tækifæri byggðanna

Góðar umræður sköpuðust um erindi Hólmfríðar, þá sérstaklega um verkefni tengd nýsköpun í sjávarútvegi og vaxandi fiskeldi.

Áhersla var lögð á umræðu um nauðsyn þess að íbúar og sveitarfélög taki höndum saman um að skapa og nýta þau sóknarfæri sem efla bæði atvinnu- og mannlíf í smærri byggðarlögum um land allt.

Þrjú af verkefnum Brothættra byggða eru í gangi á Vestfjörðum en það eru, Strandabyggð – Sterkar Strandir , Þingeyri – Öll vötn til Dýrafjarðar  og Árneshreppur – Áfram Árneshreppur

DEILA