Vegurinn á Suðurtanga, stolt Ísafjarðarbæjar

Sannlega má segja að Ísafjarðarbær sé sómasamlegur bær. Margt er þar sem hreykja sér má af. Eitt af því sem bærinn getur verið einkar stoltur af er vegurinn á Suðurtanga. Hann er sannkallað ævintýri eins og sjá má af meðfylgjandi myndum:

Myndasmiður © Valur Richter október 2021

Væri ekki úr vegi að spyrða hann við þrautabraut og torfæruvegi sem fólk hefir allajafna unun af. Ku enda svo að Íslendingar séu komnir af hraustmennum sem kalla ekki allt ömmu sína og hverjum líkar svo ekki við dagleg ævintýri og þrautagöngur?

Samkvæmt helstu upplýsingum stendur svo til að leyfa veginum að vera í þessu skínandi ásigkomulagi einhver ár til viðbótar fólkinu á svæðinu svo og þeim sem notast þurfa reglulega við brautina til mikillar ánægju.

Þar hafa bæjaryfirvöld klárlega staðið sína pligt svo sómi er af. Ættu atvinnurekendur og íbúar á svæðinu að bugta sig og beygja yfir framtakssemi bæjaryfirvalda enda vegurinn stórkostleg prýði og auðvitað engin ástæða til þess að gera þar bragarbót á og það alveg örugglega ekki fyrir kosningar á komandi ári.

Fari svo að einhver, þá kannski helst bæjaryfirvöld, kunni að telja þessu slengt fram af alvöru skal tekið fram að hér er sannlega um gráglettni að ræða.

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson

DEILA