Útvarp í öll jarðgöng á Íslandi !

Á landinu eru nú 11 jarðgöng ætluð almennri umferð ökutækja, þau elstu, Strákagöng, tekin í notkun 1967 og þau nýjustu, Dýrafjarðargöng, haustið 2020. Öll voru þessi göng mikil samgöngubót á sínum tíma en nokkur uppfylla ekki lengur nútímakröfur um öryggi og þægindi. Sem sjá má í töflunni hér að neðan nást t.d. ekki útsendingar útvarps í sex af þessum 11 göngum nema þá um farsíma og búnaði til útsendinga útvarps í Bolungarvíkurgöngum var komið upp af einkaaðila skv. tímabundnum samningi. Sá búnaður er ekki tengdur við öryggiskerfi (innákallsbúnað, ljósaskilti o.fl.) þannig að útvarpið nýtist ekki sem öryggistæki.

 Heiti ganga:Lengd í m:Opnuð:Meðalumferð
á dag 2019:
Búnaður:Áætlaður
kostnaður:
  1Hvalfjarðargöng  5.77019987.733Útvarp 
  2Dýrafjarðargöng  5.5002020Opnuð 2020Útvarp 
  3Göng undir Breiðadals- og Botnsheiði  9.120  (7.000 m einbr.)1996   722 Án útvarps   80 m.kr.
  4Bolungarvíkurgöng  5.4002010 1.029Útvarp án öryggisb.   10 m.kr.
  5Strákagöng     800  (einbr.)1967    331Án útvarps og  síma   12 m.kr.
  6Héðinsfjarðargöng   7.100 + 3.9002010    777Án útvarps   25 m.kr.
  7Múlagöng  3.400  (einbr.)1990    700Án útvarps   33 m.kr.
  8Vaðlaheiðargöng  7.5002017 1.457Útvarp 
  9Norðfjarðargöng  7.9002017    699Útvarp 
10Fáskrúðsfjarðargöng  5.9002010    776Án útvarps    14 m.kr.
11Almannaskarðsgöng  1.3002005    637Án útvarps og síma      6 m.kr.
  63.690    180 m.kr.

             Í þeim tölum sem hér eru nefndar eru ekki kostnaður við ljósaskilti sem vísa á útvarp og eru með 500 metra bili en      
             áætla má að kostnaður við kaup og uppsetningu þeirra sé um 300.000 kr. á hvert skilti ef stutt er í rafmagn.   

Í nýrri reglugerð um öryggiskröfur fyrir jarðgöng nr. 895/2021, sjá hér, sem birt var 30. júlí sl. og kom í stað reglugerðar sama efnis frá árinu 2007, var því miður ekki gert skylt að hafa búnað til útsendinga úrvarps í öllum jarðgöngum hérlendis lengri en 500 m líkt og í Noregi, heldur miðað við að göngin séu lengri en 1.000 m og fleiri en 2.000 ökutæki fari um hverja akrein að meðaltali á dag. Ekki er kunnugt hvernig þessi tala um fjölda ökutækja var fengin og hver rök voru fyrir henni, en umferð í öllum jarðgöngum á Íslandi er langt undir þessum fjölda nema í Hvalfjarðargöngum. Þá er í reglugerðinni ekki minnst á farsímasamband.

Sex aðilar, þ.m.t. Samgöngufélagið, sendu inn athugasemdir þegar drög að reglugerðinni voru til meðferðar í samráðsgátt stjórnvalda í 14 daga í vor á vefnum www.island.is, sjá hér. Komu þar fram ýmsar tillögur og ábendingar um atriði til aukins öryggis í jarðgöngum hérlendis. Voru allir á því að búnaður til útsendinga útvarps ætti að vera til staðar í öllum jarðgöngum hérlendis.

Miðað við þann ávinning sem af útvarpi hlýst getur ekki talist um mikinn kostnað að ræða vegna hinna nýrri ganga en í þeim er búnaður sem er forsenda þess að útsendingar útvarps náist (svonefndur lekur coaxstrengur). Í hinum eldri göngum, þ.e. þeim einbreiðu, er ekki að finna slíkan streng og yrði kostnaður því nokkru hærri ef koma þarf honum fyrir. Án efa mætti ná kostnaði niður með því að bjóða samtímis út kaup og uppsetningu nauðsynlegs búnaðar í öll þau sex göng á landinu, þar sem ekki næst þegar útvarp með tilheyrandi öryggisbúnaði. Þá verða án efa ekki gerð jarðgöng hér á landi í framtíðinni nema þau verði búin búnaði til útsendinga útvarps og það þótt umferð um þau verði undir 2.000 bílum á akrein á dag líkt og ákveðið var með m.a Norðfjarðargöng og Dýrafjarðargöng. Flest þau göng sem eru án útvarps eru innan vinnusóknarsvæða og því sömu vegfarendur sem fara þau til og frá vinnu dag hvern og hvimleitt og varasamt að ekki náist útsendingar útvarps hluta leiðarinnar.

Slæmt er til þess að vita að á árinu 2021 séu engin áform uppi um að koma fyrir búnaði til útsendinga útvarps ásamt tilheyrandi öryggisbúnaði í þeim sjö göngum sem eru án hans. Því er ekki annað að gera en að koma kröfum á framfæri um að slíkur búnaður verði settur upp og reglum helst breytt. Geta þeir sem vilja knýja á um að þetta skráð nafn sitt undir svohljóðandi áskorun á vefnum island.is hér:  https://listar.island.is/Stydjum/108 :

Á Íslandi eru 11 jarðgöng fyrir almenna umferð ökutækja.

1. Fern göng (Hvalfjarðargöng, Dýrafjarðargöng, Vaðlaheiðargöng og Norðfjarðargöng) eru með búnað til útsendinga útvarps ásamt tilheyrandi öryggisbúnaði (ljósaskilti o.fl.).
2. Ein göng ( Bolungarvíkurgöng) eru með búnað til útsendinga útvarps, uppsett af einkaðila skv. tímabundnum samningi, en ekki með tilheyrandi öryggisbúnaði. 
3. Sex göng (Göng undir Breiðadals- og Botnsheiðar (einbreið að hluta), Strákagöng (einbreið) , Héðinsfjarðargöng, Múlagöng (einbreið), Fáskrúðsfjarðargöng og Almannaskarðsgöng), eru án alls búnaðar til útsendinga útvarps.

Til að auka öryggi, öryggistilfinningu og vellíðan þeirra sem fara um þau göng sem talin eru í liðum 2 og 3 og til að jafnræðis sé gætt er skorað á stjórnvöld að breyta gildandi reglum og sjá til þess að komið verði fyrir búnaði til útsendinga útvarps ásamt tilheyrandi öryggisbúnaði í þeim öllum.

Ef vel tekst til með þessa undirskriftasöfnun, en rúmlega 220 hafa þegar skráð nafn sitt þegar þetta er ritað, verður af hálfu Samgöngufélagsins leitast við að fá sveitarstjórnir þeirra sveitarfélaga þar sem jarðgöng án útvarspbúnaðar er að finna til að kalla sameiginlega eftir því að í næstu samgönguáætlun verði gert ráð fyrir þessum búnaði. Þau sveitarfélög sem um ræðir eru Bolungarvíkurkaupstaður, Ísafjarðarbær, Fjallabyggð, Fjarðabyggð og Sveitarfélagið Hornafjörður.  Vonandi dugar sameiginlegt átak íbúa og hlutaðeigandi sveitarfélaga til að allir sem um jarðgöng landins aka geti náð þar útsendingum útvarps áður en langt um líður.

Jónas B. Guðmundsson
formaður Samgöngufélagsins
www.samgongur.is

DEILA