Uppskrift vikunnar: silungur

Þegar ég var að alast upp var silungur eiginlega til að vera alveg hreinskilin alltof oft í matinn. Og alltaf matreiddur eins, þverskorinn, soðin með kartöflum og smjöri.

Í mörg ár hélt ég því fram að ég borðaði ekki silung, svo einhvern tímann uppúr tvítugu fór ég að prufa mig áfram og komst að því að silungur væri herramannsmatur svo lengi sem hann er ekki þverskorinn og soðinn.

Þessi uppskrift er alveg örugglega upprunalega úr fiskréttum Hagkaupa og er mjög góð.

Mér finnst best að bera fiskinn fram með salati og hrísgrjónum.

4 stk. silungar, hreinsaðir, 300 g hver (mæli með silungi frá Ísfirðing)
smá hveiti
100 g smjör
4 stk. lárviðarlauf
10 blöð fersk salvía
60 ml hvítvín
60 ml brandí, til hátíðabrigða

Hér er það einfaldleikinn sem ræður. Hitið smjör á pönnu. Setjið lárviðarlauf og salvíu á pönnuna og brúnið létt. Veltið silungunum upp úr hveiti, sláið vel af og setjið á pönnuna. Steikið fiskinn á frekar miklum hita þar til hann er mjög vel brúnaður á báðum hliðum. Hellið víni yfir, eldið í um 5 mín. og berið fram.

Myndin er fengin að láni hjá Ísfirðing.

Verði ykkur að góðu.

Halla Lúthersdóttir

DEILA