Þingeyri: sala íbúðanna hagstæð báðum aðilum

Daníel Jakobsson, formaður bæjarráðs var inntur eftir því hvers vegna bærinn vildi selja leiguíbúðirnar níu á Þingeyri. Svör hans voru eftirfarandi:

„Þegar að síðasta fjárhagsáætlun var samþykkt var ákveðið að hefja söluferli á öllum íbúðum Fasteigna Ísafjarðarbæjar sem voru um 100 talsins. Í fyrsta áfanga er markmiðið að bjóða íbúðum að kaupa þessar eignir á hagstæðum greiðslukjörum.

Umræddar eignir hafa verið verðmetnar og í framhaldinu hafa íbúar fengið boð um að kaupa þær á verði sem er nokkuð hagstætt og á kjörum sem eru þannig að viðkomandi á að vera að greiða minna eða svipað af láni en nú er greitt í húsaleigu. Bærinn hefur jafnframt boðið eins og fram kom í frétt BB, viðbótarlán umfram það sem að banki er tilbúinn að lána að því gefnu að viðkomandi standist greiðslumat.

Ástæðurnar fyrir því að við viljum selja þessar eignir eru nokkrar.

Í fyrsta lagi þá er eignasafn okkar mjög stórt og að öllu jöfnu höfum við þurft að leggja félaginu til umtalsverðar fjárhæðir ár hvert og þrátt fyrir það ekki náð að viðhalda öllum eignum. Bærinn á mun fleiri eignir en þarf til að standa undir félagslegum skyldum sínum og ekki stendur til að víkja frá þeirri skluldbindingu. Bærinn mun eftir sem áður bjóða félagsleg úrræði.

Með því að selja þær er því hægt að nýta þessa fjármuni sem í þetta hafa farið í annað t.d. að taka þátt í að greiða stofnframlög til nýbygginga í sveitarfélaginu og stuðla þannig að því að byggt verði hér sem mikil þörf er á. Fjármunum sveitarfélagsins er betur varið í slík verkefni.

Að lokum er það mikil fjárhagsleg skuldbinding fyrir sveitarfélagið að eiga þessar eignir og þær skuldir sem því fylgja. Þau ár sem verðbólga er mikil hefur það mikil áhrif á skuldastöðu bæjarins og gerir það að verkum að erfiðara er að standa undir nauðsynlegri fjárfestingu.

Með því að gefa leigjendum kleift að kaupa á hagstæðum greiðslukjörum teljum við að bæði bærinn og leigjendur njóti góðs af. Það er því von okkar að sem allra flestir nýti sér þetta tækifæri og kaupi þær eignir sem viðkomandi býr í.“

Aðspurður um hvað bærinn kæmi til með að eiga margar af íbúðunum níu í Fjarðargötu 30 segir Daníel að ákvörðun um það verði tekin þegar komin er niðurstaða í áhuga fólks á að kaupa.