Skipulagsstofnun setur fótinn fyrir vindorkugarð í Garpsdal

Skipulagsstofnun hefur enn ekki afgreitt breytingu á aðalskipulagi Reykhólahrepps frá 15. apríl síðastliðinn sem gerir óbyggt svæði að iðnaðarsvæði. Sveitarstjórn hefur ítrekað óskað eftir því að stofnunin afgreiði skipulagsbreytinguna en án árangurs. Tilefnið eru áform EM Orku um að reisa allt að 130 MW vindorkuver í Garpsdal. Miðað er við 35 myllur allt að 150 metra háar. Tillaga að matsáætlun fyrir framkvæmdina var lögð fram í apríl 2019. Skipulagsstofnun féllst á matsáætlunin í júlí 2020 en með 18 tölusettum athugasemdum.

Í maí skýrði Skipulagsstofnun afstöðu sína. Stofnunin vill að umhverfismat fyrir vindorkuver í Garpsdal liggi fyrir áður en skipulagsforsendur fyrir það eru endanlega ákveðnar með samþykkt og staðfestingu aðalskipulagsbreytingarinnar. Skipulagsstofnun mælti með því að Reykhólahreppur tæki aðalskipulagsbreytinguna til afgreiðslu að nýju þegar umhverfismati framkvæmdanna væri lokið.

Skipulagsnefnd Reykhólahrepps benti á í svari sínu í júní að sveitarstjórn ber ábyrgð á gerð eða breytingu aðalskipulags og sendir það Skipulagsstofnun til staðfestingar sbr. 2. mgr. 29. gr. Nefndin áréttaði að sveitarstjórn hefur samþykkt téðar aðalskipulagsbreytingar er varða breytingar á óbyggðu svæði í iðnaðarsvæði og ítrekaði fyrri beiðni um afgreiðslu.

Huga vel að litavali

Í júlí sendi Skipulagsstofnun aftur bréf og tilkynnti að að tafir yrðu á afgreiðslu stofnunarinnar á erindi Reykhólahrepps. Í byrjun september fær Reykhólahreppur bréf frá Skipulagsstofnun með ábendingum og bregst við því með afgreiðslu í síðustu viku. Bætt var við tveimur málsgreinum í skipulagstillöguna, öðru varðandi efnistöku og hitt um atriði til að lágmarka neikvæð áhrif af framkvæmdinni á landslag og ásýnd. Þar segir:

„Til þess að lágmarka neikvæð áhrif framkvæmdarinnar á landslag og ásýnd þá þarf að huga vel að litavali og lágmarka alla lýsingu á svæðin en taka þarf tillit til flugumferðar. Raski skal haldið í lágmarki og sérstök aðgát skal höfð við
framkvæmdir nærri votlendi og að staðsetja vindmyllur ekki inn á vistfræðilega mikilvægu landi. Landslag skal fært aftur til fyrra horfs eins og mögulegt er og vegskeringar aðlagaðar landslagi og röskuð svæði grædd upp. Mikilvægt er að taka mið af umhverfinu og nærliggjandi, náttúrulegum gróðri þegar uppgræðsluaðferðir eru valdar og halda raski á gróðri í lágmarki.“

Sveitarstjórn ítrekar enn fyrri beiðni um afgreiðslu af hálfu Skipulagsstofnunar.

DEILA