Skipulag Ísafjarðar frá 1927

Skipulag Ísafjarðar var fyrsti skipulagsuppdráttur sem var staðfestur á Íslandi.

Rekja má söguna ögn lengra, eða til ársins 1916. Þá kom út ritið Um skipulag bæja eftir Guðmund Hannesson, lækni, sem varð til þess að mikil umræða skapaðist á Íslandi um skipulagsmál. Segja má að sú umræða hafi lifað góðu lífi síðan. En fimm árum síðar, árið 1921, voru sett skipulagslög og í kjölfarið skipuð skipulagsnefnd ríkisins. Í henni sátu þeir Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins, áðurnefndur Guðmundur Hannesson og Geir G. Zoëga, vegamálastjóri.

Nefndin skilaði tillögu að skipulagi Ísafjarðar til stjórnarráðsins þann 8. mars 1927 og var skipulagið formlega staðfest átta dögum síðar. Fyrstu tillögur að skipulaginu voru þó eldri, eða frá 1924.

Uppdrátturinn er einkar áhugaverður í dag með tilliti til nútímaáherslna í skipulagsmálum. Guðmundur var undir áhrifum enska skipulagsfræðingsins Ebenezer Howard, sem var þekktur fyrir garðborgarhreyfinguna (e. Garden city movement) og sér þess stað með ýmsum hætti í skipulaginu. Lögð er áherslu á skýra bæjarmiðju og segir meðal annars í greinargerð skipulagsins að gera ætti „bæjarvöll upp af hafnarbryggju og skipa helztu opinberum byggingum umhverfis hann og nokkrum húsum einstakra manna til uppfyllingar.

Verður þá aðalverzlunarsvæðið í Hafnarstræti beggja megin hafnarbryggju og í götuhlutanum upp af henni sem liggur inn á bæjarvöllinn.“Textinn sem fylgir uppdrættinum er svohljóðandi: „Skipulagsuppdráttur þessi staðfestist hjermeð samkvæmt lögum nr. 55, 27. júní 1921 til að gilda sem samþykkt um skipulag Ísafjarðarkaupstaðar og birtist til leiðbeiningar og eftirbreytni öllum sem hlut eiga að máli. Atvinnu- og samgöngumálaráðuneytið, 16. mars 1927.“Skipulag Ísafjarðar frá 1927 er Skipulagsuppdráttur vikunnar.

Við ætlum að birta vikulega skipulagsuppdrátt eða myndir úr skjalasafni okkar sem gefa áhugaverða innsýn í íslenska skipulagssögu.

Af vefsíðu Skipulagsstofnunar

DEILA