Sjóvá eykur þjónustuna á Vestfjörðum – Hrafn Guðlaugsson nýr sölu- og þjónustustjóri einstaklinga hjá Sjóvá Ísafirði

Hrafn Guðlaugsson hefur verið ráðinn nýr sölu- og þjónustustjóri einstaklinga hjá Sjóvá á Ísafirði en Hrafn tók við starfinu þann 1. september 2021. Hann hefur starfað hjá einstaklingsráðgjöf Sjóvá frá árinu 2017 og hlakkar til að sinna sölu- og þjónustustjóra, sem er ný staða hjá útibúinu á Ísafirði.

„Við viljum auka enn þjónustuna okkar á Vestfjörðum. Þar eigum við góðan og tryggan hóp viðskiptavina sem við viljum sinna vel, bæði einstaklinga og fyrirtæki. Ég mun halda utan um þá þjónustu sem snýr að einstaklingum, ásamt því frábæra fólki sem starfar í útibúinu,“ segir Hrafn. Hjá Sjóvá Ísafirði starfa auk Hrafns þau Þórunn Snorradóttir útibússtjóri, Daníel Örn Davíðsson, Helga Sigmundsdóttir og Konráð Hentze Úlfarsson. Undir útibúið heyrir jafnframt umboðið á Hólmavík.

„Við vinnum í nánu samstarfi við önnur útibú Sjóvá um allt land. Á meðan samkomutakmarkanir voru miklar og við unnum öll heima þá var ánægjulegt að finna hvernig samtalið milli starfsfólks á ólíkum starfsstöðvum varð meira. Þetta varð líka til þess að við gátum boðið viðskiptavinum upp á fleiri möguleika til að vera í sambandi við okkur. Nú er þannig hægt að panta spjall við þjónustufulltrúa í gegnum Teams, sem mörgum þykir þægilegur kostur. En við erum auðvitað áfram á okkar stað við Silfurtorgið og vorum afskaplega glöð þegar við gátum opnað aftur fyrir komur viðskiptavina og fengið þá til okkar í kaffibolla. Við viljum jú eiga samskipti við viðskiptavini okkar á þeirra forsendum, hvort sem þeim finnst best að hafa samband með tölvupósti, í gegnum netspjall, síma eða einfaldlega með því að koma til okkar,“ segir Hrafn.   

Hrafn er í grunninn Austfirðingur. Hann hélt að loknu námi við Menntaskólann á Egilsstöðum út til náms til Bandaríkjanna, þar sem hann nam viðskiptafræði og stjórnun, ásamt því að reyna við atvinnumennsku í golfi. Hann á þó einnig rætur að rekja vestur á firði. „Amma mín Erla fæddist í Goðdal í Bjarnafirði árið 1937. Eftir að hún missti móður sína og systur í snjóflóðinu sem varð þar 1948 flutti hún í bæinn, þar sem hún kynnist Boga afa mínum og þau flytja á Djúpavog. Þar bjó ég einmitt fyrstu ár ævinnar, áður en ég flutti til Egilsstaða“.

Hrafn segir að sér lítist afskaplega vel á Ísafjörð og hlakkar hann til að kynnast fólkinu sem þar býr betur. „Kærastan mín, Monika Piekarska, er síðan væntanleg hingað vestur þar sem hún mun taka hluta mastersnámsins síns í félagsráðgjöf hér.“ Hrafn segist líka hlakka til að geta sinnt áhugamálum sínum fyrir vestan, sem telja allt frá badminton og golfi til bókalesturs og tónlistar. „Ég bíð því að sjálfsögðu spenntur eftir Aldrei fór ég Suður.“  

Hrafn segir Sjóvá hafa lagt mikið upp úr því að hlusta á viðskiptavini sína og veita þeim framúrskarandi þjónustu. Það hafi því verið ánægjulegt að sjá það á síðustu árum hversu vel viðskiptavinirnir kunna að meta þessar áherslur. „Við sjáum það meðal annars í niðurstöðum Íslensku ánægjuvogarinnar undanfarin ár, en Sjóvá hefur verið þar efst tryggingafélaga síðustu fjögur árin. Við sjáum það líka í okkar mælingum að viðskiptavinir okkar á landsbyggðinni eru afar ánægðir með þjónustuna og það eflir okkur enn frekar og ýtir undir að við viljum halda áfram að gera enn betur í þessum efnum.“

DEILA