Rjúpnaveiði heimiluð frá hádegi og fram í myrkur

Veiðitímabil rjúpu verður frá 1. – 30. nóvember í ár. Heimilt er að veiða fimm daga í viku, frá föstudegi til þriðjudags, en eins og síðustu ár er veiðibann á miðvikudögum og fimmtudögum.

Sú breyting er þó gerð á að ekki verður heimilt að hefja leit eða veiði á rjúpu fyrr en kl. 12.00 þá daga sem heimilt er að veiða og skal veiði eingöngu standa á meðan birtu nýtur.

Ítrekað er að sölubann er á rjúpum og á það jafnt við um sölu til endursöluaðila og annarra. Eru veiðimenn hvattir til að takmarka veiðar í ljósi bágrar stöðu rjúpnastofnsins.

Fyrir liggur veiðiþol rjúpnastofnsins samkvæmt mati Náttúrufræðistofnunar Íslands sem er 20 þúsund fuglar í ár. Reynsla undanfarinna ára sýnir að raunveiði hefur verið talsvert umfram ráðgjöf þegar stofn rjúpu er í lágmarki, og var búist við um 30 þúsund fugla veiði miðað við óbreytta veiðistjórn og því var ákveðið að ekki mætti byrja veiðar fyrr en um hádegi.

Facebook Notice for EU! You need to login to view and post FB Comments!