Örlygshafnarvegi frestað til næsta árs þar sem leyfi fékkst ekki

Þann 20. apríl 2021 voru opnuð tilboð í nýbyggingu á um 2,0 km kafla vegi um Hvallátra, svonefndan Örlygshafnarveg. Tvö tilboð bárust og var samið við Þrótt ehf á Akranesi, sem bauðst til þess að vinna verkið fyrir 167 m.kr.

Verkinu átti að vera að fullu lokið 15. september síðastliðinn.

Verkið er ekki enn hafið og ljóst að verktakinn mun ekki vinna það á þessu ári. Vegagerðin var innt eftir skýringum á þessu. Í svari svæðisstjóra Vestursvæðis segir að verkefnið sé ekki farið af stað og að því hafi verið frestað fram á 2022 þar sem ekki náðist að klára öll leyfis og samninga mál.

Innt var nánar eftir skýringum og sagðist svæðisstjórinn ekki fara nánar út í málavexti í þessu tiltekna verkefni, „Vegagerðin er að vinna í því að leysa málið og vonandi verður hægt að byrja þarna með vorinu.“

Samkvæmt heimildum Bæjarins besta mun einn landeiganda á Hvallátrum hafa lagst gegn framkvæmdinni og neitað að veita samþykki sitt fyrir henni.