Knatthús á Torfnesi: kostnaðarforsendur hafa breyst

Í minnisblaði bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar til bæjarráðs segir að verulegar breytingar hafi orðið á þeim forsendum sem gengið var útfrá í kostnaðaráætlun viknatthúsið á Torfnesi. Því er nauðsynlegt að fá fram með hvaða hætti bæjarráð við vilji leiða þetta mál áfram.

„Ef bjóða á út framkvæmdina aftur m.v. óbreyttar kröfur þá mun sú framkvæmd kosta umtalsvert meira en ráð var fyrir gert. Mögulegt er að breyta forsendum útboðs í þá átt að draga úr kröfum og byggja sambærilegt hús og hefur verið gert víða á landinu þ.e. óeinangrað. Þannig mætti ná kostnaði við framkvæmdina umtalsvert niður. Ef vilji er til að skoða aðrar leiðir í stöðunni er mikilvægt að fá það fram áður en lengra er haldið.“

Bæjarstjori segir mikilvægt að eyða óvissu um framhald þessa máls og brýnt að fá fram afstöðu til þess hver næstu skref í málinu eiga að vera.

Framkvæmd við byggingu Knatthúss á Torfnesi hefur verið boðin tvívegis út. Í fyrra útboðinu kom ekkert tilboð. Síðara útboðið var í febrúar á þessu ári en þar óskaði Ísafjarðabær eftir tilboðum í fullnaðarhönnun og uppsetning á íþróttahúsi við Torfnes í opnu útboði sem auglýst var á Evrópska efnahagssvæðinu. Á tilboðstíma barst eitt tilboð
sem reyndist ófullnægjandi og var því vísað frá.

Í ljósi þessa hefur sveitarfélagið undanfarið haft samband við aðila á markaði til að kanna hvort áhugi sé á verkefninu
eins og það var sett fram samkvæmt útboðsskilmálum.

Leitað var til þeirra fyrirtækja sem eru á þessum byggingamarkaði þ.e. þau fyrirtæki sem hafa reynslu af byggingu sambærilegra húsa og kannaður grundvöllur þess að semja á grundvelli útboðs. Þær viðræður hafa leitt í ljós að
forsendur útboðs og kostnaðaráætlunar eru gjörbreyttar. Breyttar forsendur lúta einkum að því að hráefniskostnaður hefur hækkað verulega í Covid faraldrinum. Þannig hefur t.a.m. verð á stáli og timbri hækkað um tugi prósenta á árinu.

DEILA