Ísafjarðarbær: vilja byggja leiguhúsnæði fyrir aldraða

Bæjarfulltrúar Í – listans lögðu til á síðasta bæjarstjórnarfundi að fela bæjarstjóra að leita eftir samstarfi við landssamtök eldri borgara um að koma að uppbyggingu leiguhúsnæðis í Ísafjarðarbæ.

Í tillögunni segir að leigufélag aldraðra er húsnæðissjálfseignarstofnun sem byggir hagkvæmar íbúðir til leigu fyrir eldri borgara og hefur komið að uppbyggingarverkefnum í öðrum sveitarfélögum með farsælum hætti, síðast á Akranesi. Þegar hugað er að húsnæði (íbúðakjarna) fyrir eldri borgara þarf að tryggja að það sé stutt í aðra þjónustu.


Bæjarfulltrúar Í-listans leggja einnig til að þær þrjár nýju íbúðir sem stendur til að útbúa á fjórðu hæðinni á Hlíf 1 verði leiguíbúðir enda eru 21 einstaklingur og þrenn hjón á biðlista eftir íbúð í húsinu.

Tillögunni var vísað til umsagnar í velferðarnefnd og öldungaráði.

DEILA