Ísafjarðarbær: skólamáltíð lækki um 9%

Fræðslunefnd Ísafjarðarbæjar leggur til nokkrar breytingar á gjaldskrá skólasviðs og þá til lækkunar.

Þar á meðal er gerð tillaga um að stök skólamáltíð miðað við mánaðargjald í grunnskólum lækki úr kr.540 í kr.490. Það er um 9% lækkun. Jafnframt að tímagjald í dægradvöl lækki úr kr.400 í kr. 390 og að hámarksgjald fyrir vist barna á mánuði í dægradvöl lækki úr kr.19.300 í kr.18.900.

Gert er ráð fyrir að gjaldskrárbreytingin taki gildi 1. janúar 2022.

Tillögur fræðslunefndar hafa verið kynntar fyrir bæjarráði, sem á eftir að taka afstöðu til þeirra.

Formaður fræðslunefndar er Elísabet Samúelsdóttir. Aðrir nefndarmenn eru Jónas Þór Birgisson, Magnús Einar Magnússon og Nanný Arna Guðmundsdóttir. Hún sat ekki fundinn en í hennar stað mætti Finney Rakel Árnadóttir.

DEILA