Byrjendanámskeið hjá Háskólasetrinu og Fræðslumiðstöðinni

Dagana 1. nóvember til 12. nóvember n.k. á sér stað byrjendanámskeið (A1) í íslensku hjá Háskólasetri Vestfjarða og Fræðslumiðstöð Vestfjarða. Námskeiðið er af öðrum toga en þau námskeið sem Fræðslumiðstöð stendur allajafna að af því að það á sér stað á degi hverjum utan helga. Námskeiðið er því tilvalið fyrir þá sem vilja stíft prógramm og hafa tíma til þess að einbeita sér að lærdómnum.

Námskeiðsgjaldið er 75.000 krónur fyrir 50 til 55 kennslustundir. Fjöldi kennslustunda fer að vísu eftir þátttökufjölda en til þess að hægt verði að bjóða upp á 50 til 55 kennslustundir þurfa að lágmarki 6 aðilar að skrá sig til leiks.

Námskeiðið er liður í því að auka framboð í íslenskukennslu á Ísafirði og Vestfjörðum bæði fyrir þá sem þar eru búsettir en einnig fyrir þá sem búsettir kunna að vera annars staðar á Íslandi. Námskeiðið er auðvitað einnig opið fyrir fólk utan Íslands.

Með námskeiðinu og vonandi fleiri námskeiðum á mismunandi færnistigum sem fylgja munu í kjölfarið spilar staðsetningin stóra rullu. Margir nemenda okkar hafa einmitt haft á því orð að Ísafjörður og aðrir staðir Vestfjarða eða öllu heldur fólk á þessum stöðum, séu viljugri til að gefa sér þann tíma sem þarf til að tala íslensku við þá sem málið læra auk þess sem þeir eru gjarnari á að endurtaka og endurorða og skipta ekki yfir á ensku þótt ekki sé farið alveg rétt með málið.

Vel hugsanlega hefur fjöldi fólks af erlendu bergi brotnu á Vestfjörðum eitthvað með það að gera svo og ágætt starf Háskólaseturs og Fræðslumiðstöðvar í því að auka meðvitund um hvað það felur í sér að læra tungumál. Ef til vill spilar einnig inn í sú áhersla sem lögð hefir verið á að læra og meðtaka með því að nota umhverfið, að leitast við að nota það sem lært  er í kennslustund strax úti í samfélaginu og hve vel Ísfirðingar og Vestfirðingar hafa tekið nemendum okkar.

Hvað sem því líður viljum við vekja athygli á komandi námskeiði. Og ef til vill þekkið þið einhvern sem hug hefði á slíku námskeiði. Og máske viljið þið liðsinna okkur smávægilega með því að vekja athygli á námskeiðinu á einhvern máta. Við viljum alltént vekja athygli á því hér og nú.

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson verkefnisstjóri íslenskunámskeiða Háskólaseturs Vestfjarða