Yfirlýsing um húsnæðisþörf á Flateyri

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar leggur til við bæjarstjórn að hún samþykki yfirlýsingu bæjarstjóra  til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 10. september 2021, vegna uppbyggingar nemendagarða Lýðskólans á Flateyri.

Yfirlýsingin er svohljóðandi:
„Varðar: Yfirlýsing vegna húsnæðisþarfar á Flateyri.

Mikil aukning hefur verið á eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði á Flateyri að undanförnu og er óhætt að segja að þar sér hreinlega húsnæðisskortur í dag. Ein helsta ástæðan er uppbygging á starfsemi Lýðskólans en starfsemi skólans hefur gengið vel og aðsókn að skólanum framar vonum. Nemendur bjuggu að hluta til í húsnæði sem í dag er á skilgreindu snjóflóðahættusvæði og ekki lengur heimilt að nýta það húsnæði til búsetu yfir vetrartímann. Þessi skilgreining á hættusvæði breyttist eftir snjóflóðið á Flateyri veturinn 2020. Bygging nemendagarða er því forsenda þess að skólinn nái að vaxa og dafna inn í framtíðina og styður Ísafjarðarbær þau áform heilshugar. Áform um byggingu nemendagarða samræmist húsnæðisáætlun sveitarfélagsins.

Ísafjarðarbær hefur auk þess verið á fá fyrirspurnir varðandi byggingu íbúðarhúsnæðis á Flateyri sem bregðast þarf við. Tekið verður tillit til framangreindra atriða og áforma við uppfærslu á húsnæðisáætlun sveitarfélagsins.

Með fyrirvara um samþykki bæjarstjórnar.

Birgir Gunnarsson
bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar“

Yfirlýsingin var sett fram til að staðfesta þörf á byggingu nemendagarða á Flateyri gagnvart Húsnæðis- og mannvirkjastofnun svo stofnframlögin yrðu líka samþykkt hjá stofnuninni en báðir aðilar, þ.e. sveitarfélagið og HMS þurfa að samþykkja stofnframlög til að hægt sé að hefja verkið.

Í vor samþykkti bæjarstjórn umsókn nemendagarða Lýðskólans um 12% stofnframlög vegna byggingar nemendagarða. Framlög HMS eru 18% af stofnkostnaði eða 134 milljónum króna.

Engar frekari fjárhagslegar skuldbindingar felast í yfirlýsingunni.

DEILA