Við öll fyrir vestan

Stjórnmál eiga það til að fara að snúast um loforð sem enginn bað um. Að lofa því að byggja tiltekið mannvirki, moka tiltekinn skurð og ráða til verksins tiltekna menn. Að lofa peningum þangað sem þeirra er ekki endilega þörf, hóta byltingu á kerfi, lofa byltingu á kerfi. Við erum öll í veikri stöðu, mismikið þó. Við óttumst að missa lifibrauðið og óttumst öryggisleysi og að fótunum sé kippt undan okkur. Það er því mikið í húfi þegar velja skal hvað eigi að kjósa og loforð eiga það til að gera lífið flókið.

Okkar mesta gæfa

Á undanförnum fjórum árum höfum við haft ríkisstjórn sem hefur tekist hið ómögulega, að halda okkur öruggum, með Katrínu Jakobsdóttur sem öflugan skipstjóra með skýra stefnu í ótrúlegum stormi. Svandís Svavarsdóttir tók heilbrigðismálin ákveðnum tökum svo eftir er tekið í takt við þá velferðarstefnu sem Vinstri græn fylgja. Þetta er okkar mesta gæfa.

Ekki aðeins tókst okkur að veðra storminn sem barst að ströndum veturinn 2020 heldur höfum við líka tekið ærlega til í að gera heilbrigðiskerfið eins og það á að vera. Fyrir fólk óháð efnahag. Þegar birtir til eftir faraldur höfum við séð hvað koma skal með gjörbreytingu í umönnun aldraðra og þjónustu við landsbyggðina. 

Sameining Vestfjarða

Við höfum svo sannarlega tekið þátt í byltingu og sýnt af okkur róttækni þegar við brettum upp ermar og hófum baráttuna við loftslagsvána með Guðmund Inga í broddi fylkingar. Hann er enn í vígamóð og við þurfum öll að taka þátt í baráttunni. Hann hefur líka opnað augu okkar fyrir verðmætunum sem eru allt í kringum okkur í ósnortinni náttúrunni sem við erum svo heppin að lifa í og með.

Það verður sannkölluð gleðistund þegar við náum að sameina suðurfirði og norðurfirði Vestfjarða á ný, og að þessu sinni um þjóðgarð. Líklega hefur ekki verið tækifæri til jafn mikillar samkenndar á Vestfjörðum frá því vegur var lagður um Dynjandisheiði, eins og Guðmundur Ingi á Kirkjubóli orti – Réttir ungur aðra hönd, Ísafjörður Barðaströnd.

Baráttukona í baráttusæti

Það hefur ekki farið framhjá neinum að hugur fylgir máli í öllum verkum Lilju Rafneyjar á þingi. Ötull talsmaður Vestfjarða og dreifbýlis með ræturnar vel nærðar og vökvaðar í heimahögum fyrir vestan. Það er nauðsynlegt og mikilvægt að verkakona af landsbyggðinni sitji á þingi því Alþingi á að sýna breidd samfélagsins. Atkvæði greitt Vinstri grænum er atkvæði greitt þingkonu sem þekkir reynsluheim kvenna, sjávarbyggða og margumtalaðrar varnarbaráttu landsbyggðarinnar.

Nú hefur okkur borist liðsauki í Bjarna Jónssyni, nýjum oddvita og verðandi þingmanni, sem kemur með ómetanlega reynslu úr sveitarstjórnarmálunum. Áskoranir sveitarfélaga af öllum stærðum við að veita íbúum góða og lögboðna þjónustu eru honum hjartans mál. Hann er líka víðsýnn vísindamaður og fjölskyldufaðir og þekkir nauðsyn þess að við séum örugg hvar sem við búum.

Það stendur ekki á Vinstri grænum að gera hlutina vel og vandlega, með velferð almennings fyrir augum. Því má treysta.

Sigríður Gísladóttir
Ísafirði
3. sæti á lista Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi

DEILA