Vestfirsk atkvæðagreiðsla um fiskeldi

Innan hreyfingar Pírata er fólki heimilt að hafa ólíkar skoðanir. Þannig eru sumir hlynntir sjókvíaeldi og aðrir ekki. Það er einkenni á heilbrigðum stjórnmálaflokki að þar rúmast ólík sjónarmið og skoðanir. Stjórnmálaflokkar sem stunda skoðanakúgun og hlýðni innan sinna raða eru í eðli sínu and-lýðræðislegir.

Þó svo að sumir Píratar hafi efasemdir um gildi sjókvíaeldis er hins vegar alveg á hreinu og hefur ítrekað komið fram að hreyfing Pírata vill virða vilja íbúa þeirra svæða þar sem fiskeldi er stundað. Píratar aðhyllast nefnilega valddreifingu, aukinn sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga og beint lýðræði. Íbúar nærsamfélags eiga alltaf að hafa úrslitaorðið varðandi ákvarðanir sem hafa bein áhrif á líf þeirra.

Íbúar á þeim svæðum, þar sem laxeldi hefur rutt sér til rúms, líta flestir jákvæðum augum á laxeldið og virðast hlynntir frekari uppbyggingu. Pírötum, sem og öðrum stjórnmálamönnum, ber að virða þennan vilja íbúa á umræddum svæðum.

Rétt væri að halda sérstaka landshluta atkvæðagreiðslu um þetta málefni þar sem niðurstöður slíkrar atkvæðagreiðslu væru bindandi. Stjórnmálamenn eiga ávallt að virða lýðræðið og vilja íbúanna en ekki bara þegar það hentar þeim. Slíka atkvæðagreiðslu ætti að halda innan Vestfjarða strax í upphafi næsta kjörtímabils.

Það er vægast sagt óþolandi þegar stjórnmálaflokkar snupra vilja almennings eins og gert var í stjórnarskrármálinu. Bæði Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri grænir munu aldrei leiða stjórnarskrármálið til lykta vegna þess að flokkarnir vilja ekki breytingar á núverandi stjórnarskrá andstætt meirihluta þjóðarinnar. En það er einmitt kjarni lýðræðisins að stjórnmálamenn þurfa að treysta og virða vilja almennings í hvívetna, ekki síst þegar þeir sjálfir hafa aðrar skoðanir.

Slagorð Pírata fyrir alþingiskosningarnar 2021 er “Lýðræði ekkert kjaftæði”. Við treystum Íslendingum til að ákvarða framtíð sína sjálfir og ekki síst íbúum nærsamfélags um allt land.

Magnús D. Norðdahl

Höfundur er oddviti Pírata í Norðvesturkjördæmi

DEILA