ÚUA: hafnar kæru um að leyfa ásætuvörn í laxeldi án umhverfismats

Ásætur geta valdið tæringu eins sést á þessari mynd.

Úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál, ÚUA, hefur hafnað kæru frá Náttúruverndarsamtökum Íslands, náttúruverndarfélaginu Laxinn lifi og Íslenska náttúruverndarsjóðnum, IWF, varðandi heimild til Arnarlax til þess að nota svokallaða ásætuvörn í sjókvíaeldi.

Slíkar varnar gera fyrirtækjunum kleift að halda kvíunum lausum við ásætur með því að notast við koparoxíð. Ásætur eru lífverur sem setjast á yfirborð sjókvíanna og draga að sér stórgerðan gróður. Ásætur geta valdið miklu efnahagslegu tjóni.

Á hinn bóginn er mat á hugsanlegum skaðlegum áhrifum af koparoxíðinu fólgið í því að meta hugsanlega uppsöfnun kopars í botnseti sem geti haft skaðleg áhrif á botndýralíf og ástand sjávar á tilteknum svæðum. Það var mat Skipulagsstofnunar að þessi áhrif væri ekki líkleg til þess að valda umtalsverðum umhverfisáhrifum.

Í laxeldinu í Patreksfirði og á Tálknafirði hófu eldisfyrirtækin notkun á ásætuvörnum, sem innihalda koparoxíð. Kærendur bentu á að í starfsleyfi fyrirtækjanna væri ekki heimild til að nota eldisnætur sem innihalda koproxíð.

Arnarlax hafði fengið heimild Umhverfisstofnunar til breytingar á starfsleyfinu til þess að nota ásætuvörnina. Skipulagsstofnun samþykkti að þessa breytingu mætti gera án undangengins umhverfismats.

Það var ákvörðun Skipulagsstofnunar sem var kærð til ÚUA og þess krafist að hún yrð felld úr gildi.

Úrskurðarnefndin segir í úrskurði sínum að Skipulagsstofnun hafi séð til þess að málið hafi verið nægjanlega upplýst áður en hún tók sína ákvörðun, stofnunin hafi lagt tilhlýðilegt mat á efni málsins og rökstutt niðurstöðu sín með fullnægjandi hætti.

Því var kröfunni um ógildinu hafnað.

Úrskurðarnefndin segir þó að ámælisvert sé að Arnarlax hafi byrjað að nota ásætuvarnirnar áður en búið var að breyta starfsleyfinu og heimila þær, en ekki verði séð að það hafi haft áhrif á málsmeðferð eða niðurstöðu hinnar kærðu ákvörðunar.

DEILA