Strandabyggð: kjörnir fulltrúar vinna sjálfir að verkefnum

Sveitarstjórn Strandabyggðar hefur samþykkt að ekki verði ráðinn sveitarstjóri í stað Þorgeirs Pálssonar, sem sagt var upp störfum í apríl. Áfram verður það fyrirkomulag haft að oddviti fer með hlutverk framkvæmdastjóra sveitarfélagsins. Þá segir í bókun sveitarstjórnar „að sveitarstjórn vinnur að verkefnum í góðri samvinnu við skrifstofu sveitarfélagsins og annað starfsfólk Strandabyggðar.“

Venjan er að starfsfólki undir forystu sveitarstjóra er falið að hrinda samþykktum sveitarstjórnar í framkvæmd. Hér er áréttað að sveitarstjórnin sjálf vinni að verkefnunum í samvinnu við starfsfólkið og er það gert undir forystu oddvitans, kjörins sveitarstjórnarmanns.

Á sveitarstjórnarfundinum, sem var haldinn á þriðjudaginn, mátti greinilega sjá þessi skil. Fundargerð ritaði einn sveitarstjórnarmanna en ekki embættismaður sveitarfélagsins og skrifstofustjóri Strandabyggðar, sem gerði grein fyrir fjárhagsstöðu sveitarfélagsins, er skráður í fundargerð sem gestur fundarins.

Fram kemur að  útgjald vegna launa sveitarstjóra lækka miðað við áætlun um 4.421.986 kr. Á móti kemur hækkun annars launakostnaðar að upphæð 1.421.986 kr. þannig að niðurstaðan er lækkun áætlunar um 3 milljónir á árinu 2021, úr 35 milljónum í 32 milljónir.

Eiríkur Valdimarsson í leyfi – enginn varamaður

Einn sveitarstjórnarmannannna Eiríkur Valdimarsson óskaði eftir leyfi frá störfum út kjörtímabilið af persónulegum ástæðum og var það samþykkt.

Eru þá aðeins tveir kjörnir aðalmenn í sveitarstjórninni eftir, þau Jón Gísli Jónsson og Guðfinna Hávarðardóttir. Ingibjörg Benediksdóttir og Aðalbjörg Sigurvaldadóttir hafa látið af störfum auk Eiríks.

Varamennirnir Ásta Þórisdóttir, Pétur Matthíasson og Jón Jónsson eru orðnir aðalmenn í þeirra stað. Fyrsti varamaður var kjörin Hafdís Gunnarsdóttir, en hún hefur fengið lausn frá störfum. Þá er eftir 5. kjörinn varamaður Egill Victorsson. Hann er fluttur í Hafnarfjörð. Staðan er því sú að enginn tiltækur varamaður er fyrir sveitarstjórnarmenn Strandabyggðar.