Sósíalistaflokkurinn: finna þarf lausn á raforkuþörfinni

Bæjarins besta hefur sent oddvitum allra framboðslista í Norðvesturkjördæmi þrjár spurningar um stefnuna í þremur mikilvægum málum Vestfirðinga, fiskeldi, virkjunvatnsafls og vegagerð í Gufudalssveit.

Hér koma svör Helgu Thorberg, oddvita Sósíalistaflokksins í Norðvesturkjördæmi.

Varðandi virkjanahugmyndir þá eru það Hvalárvirkjun og Austurgilsvirkjun sem eru í nýtingarflokki í Rammaáætlun og svo er það Vatnsfjarðarvirkjun sem Orkubú Vestfjarða hefur áhuga á að láta rannsaka frekar og jafnvel ráðast í.

Hver er afstaða þín og/eða flokksins til þessara virkjunarkosta?

Svör:

Varðandi Hvalárvirkjun – þá er búið að fresta þeim áformum sem uppi voru.

Varðandi Austurgilsvirkjun, þá liggur ekki fyrir samkomulag við jarðareigendur – þannig að það er hæpið að hún verði á dagskrá.

Varðandi Vatnsfjarðarvirkjun þá getur hún verið einn af þeim kostum sem geta komið til álita en það eru margir kostir inni í myndinni sem verið er að skoða. Finna þarf lausn sem hentar raforkuþörfinni á svæðinu og hefur sem minnst rask á náttúruauðæfi Vestfjarða. 

En það verður ekki búið við það mikið lengur að Vestfirðingar hafi ekki sama aðgang og aðrir landsmenn að tryggri raforku, það varðar þjóðaröryggi.

Vegagerð í Gufudalssveit er hafin og á dögunum var lokið samningum við landeigendur. Málið hefur verið umdeilt og verið nærri 20 ár í deiglunni.

Munt þú eða flokkurinn styðja þetta mál eða leitast við að fara aðra leið?

Svör:

Er annað hægt en að fagna því að samningar hafa loks tekist.

Laxeldi í vestfirskum fjörðum er orðinn stór atvinnuvegur og getur á næstu árum tvöfaldast með nýjum framleiðsluleyfum.

Munt þú og/eða flokkurinn styðja við uppbygginguna og hver er stefnan varðandi þennan atvinnuveg?

Svör:

Við uppbyggingu laxeldis þarf að hafa sjálfbærni í huga. 

Hugtakið sjálfbærni vísar til þess að ekki megi ganga óhóflega á forða náttúrunnar heldur verði að nýta auðlindir hennar á þann hátt að þær nái að endurnýja sig. Einnig að nýting náttúruauðlinda feli ekki í sér mengun lofts, lands eða hafs eða leiði af sér önnur umhverfisspjöll. Sjálfbær þróun er því þróun sem fullnægir þörfum samtímans án þess að skerða möguleika komandi kynslóða til lífs.

Einnig þarf uppbyggingin að vera á forsendum samfélaganna. Að sveitarfélögin og íbúar hafi meira um sín mál að segja og gera.

Ekki eins og nú þegar umræða um staðsetningu laxasláturhúss er einungis rædd á forsendum hluthafa en ekki hagsmuna íbúanna, þegar hundruð starfa geta flutst á milli byggðarlaga. Gera þarf kröfur við leyfisveitingar að fyrirtækin skili verðmætum til samfélaganna, í formi skatta og gjalda til þess að byggja upp samfélögin. 

DEILA