Pure North Recycling hlýtur Bláskelina 2021

Endurvinnslufyrirtækið Pure North Recycling hlaut í gær Bláskelina, viðurkenningu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins fyrir framúrskarandi lausn í plastmálefnum. 

Pure North Recycling fæst við endurvinnslu plasts og knýr starfsemi sína með jarðvarma. Fyrirtækið fullnýtir glatorku við bæði þvott og þurrk á hráefninu og dregur þannig úr kolefnisspori endurvinnslunnar um 80%, miðað við sambærilega vinnslu í Evrópu. 

Fimm manna dómnefnd skipuð fulltrúum frá Umhverfisstofnun, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Samtökum iðnaðarins, Plastlausum september og Ungum umhverfissinnum valdi verðlaunahafa úr hópi 17 tilnefndra.

Þrír aðrir aðilar komust í úrslit Bláskeljarinnar, en það voru Bambahús, Hemp Pack og Te & Kaffi. 

Bambahús eru gróðurhús sem búin eru til úr efnum sem annars hefði verið hent og Hemp Pack er líftæknifyrirtæki sem framleiðir ætt lífplast. Te & Kaffi hlaut tilnefningu fyrir að hafa skipt ál- og plastumbúðum út fyrir umbúðir úr plöntusterkju og trefjum.

Bláskelin er nú veitt í þriðja sinn. Veiting verðlaunanna er í samræmi við aðgerðaáætlun stjórnvalda í plastmálefnum.

DEILA