Patreksfjörður: ljósleiðaralagning stopp

Hnjótur í Örlygshöfn.

Áform um ljósleiðaravæðingu út Patreksfjörð að vestanverðu og út á Rauðasand, sem vinna átti í sumar, eru stopp þar sem ekki hefur náðst samkomulag við landeigendur varðandi lagnaleiðir. Þetta staðfestir Gerður Björk Sveinsdóttir, sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs Vesturbyggðar. Að hennar sögn er það Orkubúið sem hefur átt í samningaviðræðum við landeigendur en ætlunin er að leggja þriggja fasa streng jafnhliða ljósleiðaranum.

Vesturbyggð fékk 15,6 m.kr. styrk úr Fjarskiptasjóði í ár til verkefnisins Ísland ljóstengt.

Samkvæmt heimildum Bæjarins besta eru það landeigendur á Hvalskeri og Hnjóti sem hafa neitað að samþykkja strenglögnina um land sitt.

Elías Jónatansson, Orkubússtjóri segir hins vegar í svari við fyrirspurn Bæjarins besta um áformin um þrífösun út Patreksfjörð og út á Rauðasand að hún hafi ekki verið inni á framkvæmdaáætlun ársins 2021, en sé hluti af framtíðarplönum OV í þrífösun.  Hann segir að viðræður við landeigendur séu hafnar.

DEILA