Öflug heilbrigðisþjónusta á Vestfjörðum

Í heilbrigðisumdæmi Vestfjarða bjuggu árið 2020 6265 manns. Heilbrigðisstofnun Vestfjarða (HVEST) sinnir heilbrigðisþjónustu í umdæminu, en fjármagn til stofnunarinnar hefur á kjörtímabilinu, þ.e. árunum 2017-2021, aukist um 6,9% skv. fjárlögum, án launa- og verðlagshækkana, þ.e. á föstu verðlagi. Snjóflóð á svæðinu og Covid-19 faraldurinn sýndu fram á mikilvægi þess að vera með öfluga og fjölbreytta þjónustu í heimabyggð, en þjónustan hefur verið styrkt á ýmsa vegu á kjörtímabilinu.

Öflug heilbrigðisstofnun

Sjúkrahúsið á Ísafirði, sem heyrir undir HVEST, þjónar íbúum Vestfjarða og veitir íbúum fjórðungsins, gestum, ferðafólki og sjófarendum á Vestfjarðamiðum bráðaþjónustu. Heilsugæslustöðin á Ísafirði veitir almenna heilsugæsluþjónustu fyrir íbúa í Ísafjarðarbæ, Bolungarvík og Súðavíkurhreppi og heilsugæslustöðin á Patreksfirði veitir almenna þjónustu fyrir íbúa í Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppi.

Áhersla hefur verið lögð á að nýta Dýrafjarðargöng til að tengja þjónustusvæði HVEST meira saman innbyrðis en nú ferðast heilbrigðisstarfsfólk og sjúklingar á milli til að nýta betur þá þjónustu sem í boði er og efla samvinnu.

Framkvæmdir

Nú er unnið að stækkun á hjúkrunarheimilinu Eyri á Ísafirði, en um er að ræða 10 rýma viðbyggingu  við núverandi húsnæði. Í undirbúningi er einnig hönnunarsamkeppni um endurbætur á húsnæði stofnunarinnar á Patreksfirði en þar á að færa hjúkrunarrýmin í það horf að þau standist nútímakröfur.

Geðheilbrigðisþjónusta

Á kjörtímabilinu hefur verið sett á fót geðheilsuteymi í heilbrigðisumdæminu, auk þess sem HVEST hefur starfrækt barna- og unglingageðteymi í samstarfi við sveitarfélög og Landspítala. Sálfræðingar eru starfandi við stofnunina í hlutastarfi og fjarvinnu.

Tækjakaup

Fjármagn til tækjakaupa á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni hefur verið aukið verulega á kjörtímabilinu. Fjármagnið hækkaði um 200 milljónir árið 2018 en á kjörtímabilinu nema fjárframlög til tækjakaupa heilbrigðisstofnana tæpum 1,3 milljarði samtals. Þessi aukning á fjármagni hefur gert það að verkum að á HVEST hafa verið keypt tvö ný röntgentæki, þ.a. á Ísafirði og Patreksfirði, auk þess sem nú er undirbúningur hafinn að kaupum á tölvusneiðmyndatækjum.

Fjarheilbrigðisþjónusta

Í þessu samhengi má nefna verkefni á Byggðaáætlun til eflingar fjarheilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni sem hlutu stuðning á kjörtímabilinu, en meðal þeirra er samstarfsverkefni geðþjónustu Landspítala og Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða.

Heilbrigðisþjónustan í heilbrigðisumdæmi Vestfjarða hefur verið styrkt umtalsvert á kjörtímabilinu. Starfsemi hefur verið efld með auknum fjárframlögum svo mögulegt hefur verið að efla þjónustu sem fyrir var, auk þess sem fjármagn hefur runnið til tækjakaupa og framkvæmda. Við þurfum að halda áfram að efla heilbrigðisþjónustuna á landsbyggðinni enn frekar á næsta kjörtímabili, öllum landsmönnum til heilla.

Svandís Svavarsdóttir,

heilbrigðisráðherra