Landhelgisgæslan fær Freyju i október

Nokkrir starfsmenn Landhelgisgæslunnar héldu til Hollands á dögunum og fengu kennslu á varðskipið Freyju sem afhent verður Landhelgisgæslunni í október. Óhætt er að segja að með tilkomu Freyju verði mikil framþróun í björgunargetu Landhelgisgæslunnar og aðbúnaði starfsfólks. Þegar Freyja kemur til landsins mun Landhelgisgæslan hafa á að skipa tveimur afar öflugum varðskipum, sérútbúnum til að sinna löggæslu, leit og björgun á krefjandi hafsvæðum umhverfis Ísland.

Hálft ár er liðið frá því að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, tilkynnti að öflugt varðskip yrði keypt fyrir Landhelgisgæsluna. Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslu Íslands segir kaupferlið hafa gengið hratt og örugglega fyrir sig og niðurstaðan sé gleðileg.

,,Við erum ákaflega ánægð með niðurstöðu útboðsins og þjóðin kemur til með að fá afar vandað og vel búið varðskip. Dráttargeta Freyju er til að mynda tæplega tvöfalt meiri en dráttargeta varðskipsins Þórs eða rúm 200 tonn. Einnig eru færanlegir kranar á afturþilfari skipsins sem gera björgunarstörf og aðra vinnu áhafnarinnar auðveldari. Þá er einn öflugur stór krani fremst á afturþilfari. Skipið er mjög vel búið dráttarspilum svo taka má stór og öflug skip í tog. Freyja hefur jafnframt svokallað DP2 stjórnkerfi sem er heldur fullkomnara en kerfi Þórs auk þess sem skipið er búið svokölluðu FIFI-2 slökkvikerfi. Við hjá Landhelgisgæslunni erum ákaflega spennt að fá þetta stórgóða skip í flotann. Með tilkomu Freyju er stórt framfaraskref stigið í björgunarmálum þjóðarinnar. “ Segir Georg.

Gísli Páll,  yfirvélstjóri lærir á vélbúnað skipsins. 

Um borð í varðskipinu Freyju eru vistarverur fyrir þrjátíu og fimm manns og gott þilfarspláss sem gerir skipið einstaklega vel búið til að flytja björgunarbúnað þegar samgöngur á landi bregðast. Þá er Freyja útbúin sambærilegum ísklassa og varðskipið Þór.

Setustofa skipsins.

Einar H. Valsson, skipherra, sigldi með Freyju á dögunum þar sem skipið var í verkefni á vegum seljenda. ,,Freyja er mjög öflugt varðskip og afar vel búið til að takast á við þau verkefni sem Landhelgisgæslunni eru falin. Í ferðinni á dögunum var gaman að sjá þá fjölmörgu möguleika sem skipið býr yfir.“ Segir Einar.

Landhelgisgæslan og dómsmálaráðuneytið hafa í sameiningu tekið þá ákvörðun að heimahöfn varðskipsins Freyju verði Siglufjörður og njóti skipið þjónustu þar og á Akureyri eftir þörfum. 

DEILA