Ísafjörður: Sigríður Gísladóttir ráðinn til erlends fyrirtækis sem þjónustar fiskeldi

Sigríður Gísladóttir dýralæknir hefur verið ráðin til starfa hjá Bláum Akri ehf. Blár Akur er dótturfyrirtæki Åkerblå Group í Noregi og sérhæfir sig í heilbrigðisþjónustu og umhverfisrannsóknum í fiskeldi.

Åkerblå stefnir á að bjóða viðskiptavinum á Íslandi þjónustu af sömu gæðum og boðin er í Noregi. Starfsmenn á Íslandi munu verða hluti af stærri heild sérfræðinga í höfuðstöðvunum í Noregi. „Við viljum taka þátt í að byggja upp og hafa jákvæð áhrif á þróun í fiskeldi á Íslandi. Það gleður okkur mikið að Sigríður hafi þegið stöðuna“, segir framkvæmdastjóri erlendra viðskipta í Åkerblå Group, Arvid Strømme.

Sigríður er menntuð dýralæknir frá Dýralæknaháskólanum í Noregi. Að loknu námi vann hún sem dýralæknir í fiskeldi í Noregi en hefur undanfarin ár verið dýralæknir hjá Matvælastofnun og sinnt þar heilbrigði og velferð eldisfiska og loðdýra, auk verkefna innan stjórnsýslu og alþjóðlegrar samvinnu á sviði dýraheilbrigðismála.

„Við erum sannfærð um að bakgrunnur Sigríðar muni styrkja stöðu okkar á sviði sjúkdóma og dýravelferðar í fiskeldi á Ísland. Reynsla hennar og þekkingu hennar á staðháttum mun gagnast við að byggja upp fyrirtækið og þjónustuna á Íslandi“, segir Arvid Strømme.

Åkerblå er stöndugt fyrirtæki á gömlum grunni og leiðandi í heilbrigðis- og umhverfisþjónustu við fiskeldi í Noregi. „Ég hlakka til að fá að taka þátt í að byggja upp Bláan Akur ehf. og bæta og efla íslenskt fiskeldi með liðsinni öflugs teymis fagfólks í Åkerblå“ – segir Sigríður Gísladóttir.

Sigríður er búsett á Ísafirði og verða bækistöðvar hennar þar milli þess sem hún sinnir vitjunum hjá viðskiptavinum. Hú hefur störf í desember næstkomandi.

Sigríður sagði í samtali við Bæjarins besta að hún teldi að þetta verði jákvætt skref í átt að fjölgun sérfræðistarfa í fiskeldi á svæðinu, „Norðmenn eru fremstir þjóða í fisksjúkdómum og óneitanlega spennandi að vinna með slíkum bakhjörlum.“

DEILA