Ísafjörður: Sætabrauðsdrengirnir með tónleika á sunnudaginn

Ísfirðingurinn Halldór Smárason og félagar hans í Sætabrauðsdrengjunum efna til útgáfutónleika í Hömrum á Ísafirði sunnudaginn 26. september kl. 16.

Á efnisskránni verða lög af nýjustu plötu hópsins, Sumarlögum Sætabrauðsdrengjanna, en þar má finna klassískar dægurlagaperlur að mestu útsettar af Halldóri Smárasyni og Bergþóri Pálssyni.

„Það er alltaf jafn gaman að koma vestur og spila fyrir fólkið mitt, enda nýti ég hvert tækifæri til að koma vestur og næra andann. Ekki skemmir fyrir að minn allra besti Bergþór sé nú orðinn gegnheill Ísfirðingur og ráði ríkjum á mínu gamla lögheimili, Tónlistarskólanum,“ segir Halldór. Hann lofar hörkufjöri á sunnudag: „Sætabrauðsdrengirnir eru í fantaformi og bíða spenntir eftir að gleðja Vestfirðinga.“

Þeir sem hafa verið á tónleikum drengjanna hafa orðið vitni að frábærum flutningi enda hafa þessir söngvarar verið meðal okkar bestu og þekktustu listamanna um árabil. Áheyrendur vita einnig að þótt tónlistarleg gæði séu í fyrirrúmi þá er stutt í grínið og gamanið, enda er hér um að ræða saumaklúbb jafnt á við sönghóp.

Geisladiskurinn er fáanlegur á saetabraudsdrengirnir@gmail.com og verður til sölu á tónleikunum, sem hefjast eins og áður segir kl. 16 sunnudaginn 26. september.