Ingjaldssandur: vilja rækta 46 ha skóg

Mynd af fyrirhuguðu framkvæmdasvæði.

Félagið Þorsteinshorn ehf. hefur sent inn tilkynningu um skógræktaráform félagsins í landi Hrauns á Ingjaldssandi í Önundarfirði. Fyrirhugað skógræktarsvæði er 45,7 hektarar á stærð. Svæðið var áður nýtt sem beitiland. Búskapur
hefur ekki verið í Hrauni frá 1996.

Framkvæmdir munu hefjast 4. september 2021 og fyrirhugað er að klára sumarið 2031.

Eigendur jarðarinnar óska eftir svörum sveitarstjórnar við því hvort heimilt sé að hefja framkvæmdir við skógrækt á jörðinni.

Í lýsingu á framkvæmdinni segir að við hönnun skógarins verði þess gætt að skógurinn falli sem best að landslagi, jaðrar skógræktarsvæðisins verða hannaðir sérstaklega með ásýnd skógarins í huga og umferð gangandi manna
verður ekki heft meðfram vatnsföllum.

Vísað er til Landgræðsluáætlunar 2021 -2030 hjá Ísafjarðarbæ en þar standi m.a. :


● Stjórnvöld stuðli að því að efla bindingu kolefnis með landgræðslu á grundvelli fjölþættra
vistfræðilegra-, samfélagslegra- og efnahagslegra markmiða.
● Breyta landnýtingu á hnignuðu mólendi og fara í aðgerðir sem miða að því að auka virkni þessara
vistkerfa, þar með talið árlega uppskeru og kolefnisbindingu.

Áformunum er svo lýst:

„Skógræktarsvæðið er á milli 60 og 200 m.h.y.s. Svæðið liggur suður frá Stóruhraunum að Selá og frá túnum við Langá upp í um 200 m.h.y.s. Neðst er svæðið afar rýrt, að stærstum hluta rýr melholt og milli þeirra mólendi og lækjardrög og votlendisflákar. Er ofar dregur eykst gróður. Meðfram selánni er gert ráð fyrir gysinni gróðursetningu lauftrjáa og runna, árbakkaskóg en gætt verður þess að hefta ekki för gangandi manna meðfram ánni. Í megin hluta svæðisins má gera ráð að gróðursett verði lerki og fura, greni þar sem frjósemi leyfir. Efst í verður plantað birki í eyjar sem munu svo sá sér út og mynda óreglulegan jaðar.
Lítil beit er á svæðinu og er ætlunin að byrja á að gróðursetja tegundir sem fé velur síður, lerki og greni. Mögulega verður hægt að sleppa girðingum, gangi það ekki er litið til þessa að girða frá Langá upp í kletta utan við Stóruhraun og draga þannig úr ágangi fjár. Með þessu móti er hægt að móta efri línu skógarins þannig hún falli betur að landslaginu.“

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarrðarbæjar tók erindið fyrir og bendir framkvæmdaraðila á að skógrækt er framkvæmdaleyfisskyld og bendir framkvæmdaaðila á að sækja formlega um framkvæmdaleyfi.

DEILA