Hnjótur: eigendur ósammála

Sauðlauksdalur séð til suðurs, partur af Patreksfjarðarflugvöllur i forgrunni, Vesturbyggð áður Rauðasandshreppur. / Saudlauksdalur viewing south, part of Patreksfjordur airport in foreground. Vesturbyggd former Raudasandshreppur.

Ingi Bogi Hrafnsson, eigandi að 40% af jörðinni Hnjóti í Örlygshöfn við Patreksfjörð samþykkti strax fyrir sitt leyti lagningu ljósleiðara og þriggja fasa rafmagnsstrengs um jörðina þegar eftir því var leitað í hitteðfyrra. Hann segir að undirskrift hans liggi fyrir. Inga Boga fannst ekki koma til greina að stöðva þetta framfara mál þótt honum þætti önnur leið betri frá flugvellinum á Sandoddanum út að Hnjóti en áformað var.

Samkvæmt upplýsingum Bæjarins besta mun einn eiganda að 60% jarðarinnar neita að veita heimild og setur það skilyrði fyrir samþykki sínu að Vesturbyggð veiti leyfi fyrir gististarfsemi hans. Á jörðinni hafa verið framkvæmdir án tilskylinna leyfa. Samkvæmt þessu er ljósleiðaravæðingin og lagning þriggja fasa rafmagns skilyrt öðru máli því óskyldu.

Elías Jónatansson, Orkubússtjóri staðfestir að að framkvæmdir við þrífösun úr Sauðlauksdal að Hnjóti hafi verið á dagskrá árið 2020 en hafi stöðvast vegna þess að samningar náðust ekki við landeigendur.  Af þeim sökum fór framkvæmdin ekki inn á framkvæmdaáætlun Orkubúsins fyrir árið 2021.

DEILA