Fossinn Dynjandi frá öðru sjónarhorni

Dag íslenskrar náttúru er þann 16. september og hefur verið það frá árinu 2010 en þá var ákveðið að tileinka íslenskri náttúru sérstakan heiðursdag til að undirstrika mikilvægi hennar.

Dagurinn sem varð fyrir valinu er fæðingardagur Ómars Ragnarssonar, en sem frétta- og þáttagerðarmaður hefur hann verið óþreytandi við að opna augu almennings fyrir þeim auðæfum sem felast í náttúru landsins og mikilvægi þess að vernda hana og varðveita.

Í tilefni af deginum er boðið upp á ýmsa viðburði víða um land. 

Þannig bjóða landverðir á sunnanverðum Vestfjörðum áhugasömum í göngu að fossinum Dynjanda ofan frá.
Farið verður frá áningarstæðinu við Kálfeyrarfoss á Dynjandisheiði kl: 13:00, fimmtudaginn 16. september og gengið með fram Dynjandisá að þeim stað þar sem hún steypist niður fjallið og myndar fossinn Dynjanda.


Gangan er um 4 km fram og til baka og gert er ráð fyrir að hún taki 1,5-2 klst. Hún er tiltölulega auðveld en nauðsynlegt er að klæða sig eftir veðri og vera vel skóaður. Allir velkomnir.