Fiskeldi í þágu fólksins

Þar sem þannig háttar til hér á landi að kjöraðstæður eru til fiskeldis verðum við að tryggja að þau tækifæri sem í því felast verði nýtt til að byggja upp umhverfisvænt og sjálfbært fiskeldi, sem getur skilað mjög miklum arði til langs tíma fyrir þjóðina. Sérstaklega fólkið sem býr nærri þeim stöðum þar sem aðstæður til fiskeldis eru hagfelldastar. Skapað þar atvinnu og eflt og skotið nýjum stoðum undir byggðarlög sem eiga mörg mjög undir högg að sækja, oft vegna þess að þau hafa verið rænd réttinum til að veiða og vinna fisk.

En það er hægur vandi að klúðra þessum stórkostlegu tækifærum til að bæta hag og lífsgæði fólksins í landinu, sem á að sjálfsögðu þessar auðlindir sem góðar aðstæður til fiskeldis eru. Öruggasta leiðin til að klúðra því er að láta íslenska og útlenda kapítalista, fjárplógsfólk og braskara, sem stjórnast af voninni einni um skjótfenginn gróða, valsa um í þessari atvinnugrein. Gróðafíknir peningamenn bera enga virðingu fyrir vinnandi fólki og viðkvæmri náttúru. Þeir arðræna fólkið, eins mikið og þeir komast upp með og blóðmjólka þær náttúruauðlindir sem þeir komast í og skilja eftir sviðna jörð.

Við verðum að læra af mistökunum miklu. Við megum ekki við nýtingu þeirra tækifæra sem í fiskeldinu felast endurtaka það stórkostlega óréttlæti sem kvótkerfið hefur leitt af sér. Þar sem auðugir útgerðarmenn, sem hafa fengið einkarétt frá ríkinu til að nýta fiskveiðiauðlindina okkar, hafa líf og framtíð fólksins og heilu byggðarlaganna í hendi sér og geta svipt fólkið sem þar býr lífsviðurværi sínu, án þess að spyrja kóng eða prest og enn síður fólkið sem í landinu býr og á fiskveiðiauðlindina, með því að selja kvótann hæstbjóðanda. Og nýta svo allar milljarðana og milljónirnr sem fyrir hann fást, fyrirhafnarlaust, til að tryggja sjálfum sér og afkomendum sínum og afkomendum þeirra auð og munað og áhyggjuleysi til æviloka. Eða bara flytja auðinn úr landi til að þurfa ekki að greiða af honum til íslensks samfélags það litla sem til er ætlast.  

Við verðum að tryggja að ávinningurinn af þeirri miklu auðlind sem góðar aðstæður til fiskeldis eru renni til fólksins í landinu og mest til þeirra sem næst búa en streymi ekki ofan í úttroðna vasa fárra, ríkra Íslendinga og útlendinga.

Sósíalistaflokkurinn ætlar því að berjast af alefli fyrir því að heimafólk sem þekkir svo vel firðina sína og landið sitt og vill því vernda það fyrir ágangi og spjöllum ráði sem mestu um hvernig fiskeldi verður háttað í nærumhverfi þess og hvernig arðinum af þeirri atvinnugrein verður ráðstafað.

Árni Múli Jónasson

Höfundur er í 2. sæti á framboðslista Sósíalistaflokksins  í Norðvesturkjördæmi.

DEILA