Djúpið: Háafell fær að undirbúa laxeldi þrátt fyrir að leyfin hafi verið kærð

Úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál, ÚUA, hafnaði því með tveimur úrskurðum í gær að fresta réttaráhrifum rekstrarleyfis og starfsleyfis sem Háafell hefur fengið frá Matvælastofnun og Umhverfisstofnun meðan kæra Arnarlax er til meðferðar hjá nefndinni.

Háafell fékk í júní leyfi fyrir 6.800 tonna laxeldi í sjó fyrir frjóan lax og einnig 6.800 tonna leyfi fyrir ófrjóan lax í Ísafjarðardjúpi. Arnarlax kærði leyfisveitinguna og telur fyrirtækið að Skipulagsstofnun hafi hagrætt tímasetningum á útgáfi álits stofnunarinnar á matsskýrslum frá þremur umsækjendum um laxeldi í Djúpinu sem hafi svo leitt til þess að Háafell hafi fyrst fengið úthlutað leyfum og fyrirsjáanleg sé að Arnarlax verði síðast í röðinni með þeim afleiðingum að fyrirtækið fái ekki nein leyfi til laxeldis.

Þessi kæra er óafgreidd hjá ÚUA, en úrskurður er væntanlegur innan 6 mánaða.

Arnarlax fór fram á að óheimilt væri að nýta leyfin til undirbúnings laxeldinu meðan kæran væri óafgreidd. Rökin fyrir þessari kröfu eru að því lengra sem framkvæmd laxeldis leyfishafa sé komin þeim mun umfangsmeiri og tímafrekari muni stöðvun eldisstarfseminnar verða. Kaup á búnaði, fóðri og eftir atvikum laxaseiðum feli í sér mikinn kostnað fyrir fiskeldisfyrirtækin og tjón ef leyfin verði felld úr gildi. Ekki sé ólíklegt að fyrir hendi séu lagaskilyrði fyrir því að krefja ríkið um greiðslu á útlögðum kostnaði og óbeinu tjóni í slíku tilviki, enda rekstrarleyfishafi í góðri trú um lögmæti leyfanna.

Úrskurðarnefndin hafnaði þessari kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða með þeim rökum að er ekki fyrirhugað að setja út laxaseiði í sjó fyrr en í maí 2022, en úrskurðar í kærumálinu er að vænta innan þess tíma.

Bendir nefndin á að lög­bundinn málsmeðferðartími úrskurðarnefndarinnar er þrír til sex mánuðir frá því að gögn máls berast frá viðkomandi stjórnvaldi.