Miðflokkurinn: Orkuvinnsla verði möguleg innan væntanlegs þjóðgarðs

Bæjarins besta hefur sent oddvitum allra framboðslista í Norðvesturkjördæmi þrjár spurningar um stefnuna í þremur mikilvægum málum Vestfirðinga, fiskeldi, virkjunvatnsafls og vegagerð í Gufudalssveit.

Hér koma svör Bergþórs Ólasonar, oddvita Miðflokksins í kjördæminu.

Varðandi virkjanahugmyndir þá eru það Hvalárvirkjun og Austurgilsvirkjun sem eru í nýtingarflokki í Rammaáætlun og svo er það Vatnsfjarðarvirkjun sem Orkubú Vestfjarða hefur áhuga á að láta rannsaka frekar og jafnvel ráðast í.

Hver er afstaða þín og/eða flokksins til þessara virkjunarkosta?

Svör:

“Ég er fylgjandi nýtingu þeirra orkukosta sem eru í nýtingarflokki Rammaáætlunar og tel skynsamlegt að Orkubúið fái svigrúm til að kanna fýsileika Vatnsfjarðarvirkjunar.  Verði niðurstaðan sú að koma á þjóðgarði á sunnanverðum Vestfjörðum, þá tel ég nauðsynlegt að haga málum þannig að orkuvinnsla sé möguleg innan þess svæðis, enda er og verður framleiðsla á grænni orku helsta framlag okkar Íslendinga til lofslagsmála í heiminum.

Í þessu samhengi er rétt að minna á þingsályktun um hringtenginu rafmagns á Vestfjörðum, sem ég var fyrsti flutningsmaður að, studdur af þingflokki Miðflokksins, ályktunin er aðgengileg hér: https://www.althingi.is/altext/151/s/1580.html  “

Vegagerð í Gufudalssveit er hafin og á dögunum var lokið samningum við landeigendur. Málið hefur verið umdeilt og verið nærri 20 ár í deiglunni.

Munt þú eða flokkurinn styðja þetta mál eða leitast við að fara aðra leið?

Svör:

“Ég og við í Miðflokknum styðjum við framgang vegagerðar um Gufudalssveit, skv. svokallaðri Þ-H leið, af fullum þunga.  Það hefur verið með hreinum ólikindum að sjá hvenig málið hefur tafist kjörtímabil eftir kjörtímabil.  Síðan mega aðrar framkvæmdir ekki bíða.  Veglagning um Dynjandisheiði þarf að ganga hratt fyrir sig og framkvæmdir við Bíldudalsveg verða að komast af stað (og klárast) ef samfélögin á svæðinu eiga að geta notið þeirrar viðspyrnu sem fiskeldið er að skapa.”

Laxeldi í vestfirskum fjörðum er orðinn stór atvinnuvegur og getur á næstu árum tvöfaldast með nýjum framleiðsluleyfum.

Munt þú og/eða flokkurinn styðja við uppbygginguna og hver er stefnan varðandi þennan atvinnuveg?

Svör:

„Á Íslandi hefur fiskeldi vaxið jafnt og þétt, treyst byggð, skapað störf og fjölþætt verðmæti. Fiskeldi er sérstaklega verðmæt viðbót við atvinnusköpun á landsbyggðinni. Miðflokkurinn styður við áframhaldandi uppbyggingu í sátt við umhverfið á hverjum stað.  Um leið og eldið vex, þá verðum við að styrkja samgönguleiðir svæðisins, bæði til að koma vörum til og frá svæðinu og líka fyrir starfsfólk að komast á milli staða innan stækkandi atvinnusvæða.“