Vinstri grænir: setja búsetuskyldu á íbúðarhúsnæði

Stjórnmálaflokkarnir eru þessa dagana að birta kosningastefnuskrá sína. Vinstri grænir héldu landsfund um helgina og hafa sent frá sér stjórnmálaályktun.

Þar eru meginlínurnar dregnar upp í almennum orðum en einnig má finna áherslur sem höfða til landsbyggðarinnar.

Búsetuskylda í íbúðum

Bryddað er upp á nýjum áherslum varðandi notkun á auðu íbúðarhúsnæði. Í ályktuninni stendur:

„Skoða þarf að setja á lagaheimild til búsetuskyldu í íbúðarhúsnæði, með áherslu á þéttbýlissvæði eins og þekkist víða í Evrópu, til að tryggja að húsnæði standi ekki autt árum og áratugum saman á sama tíma og fólk vantar þak yfir höfuðið.“

Auka byggðakvóta

Um sjávarútveg segir:

„Halda þarf áfram að auka byggðatengdar aflaheimildir (5,3% kerfið), efla strandveiðar, vinna gegn samþjöppun í sjávarútvegi og stuðla að fjölbreytni í útgerð. Meta þarf áhrif nýs fyrirkomulags afkomutengdra veiðigjalda á lítil og meðalstór fyrirtæki annars vegar og stærri fyrirtæki hins vegar.“

Þjóðgarður á Vestfjörðum

Þá er ályktað um þjóðgarða.

„Náttúruvernd og vernd líffræðilegrar fjölbreytni eru lykilþættir í því að tryggja sjálfbærni samfélagsins og mikilvægar aðgerðir til þess eru að stofna þjóðgarð á miðhálendi Íslands og Vestfjörðum.“

Störf án staðsetningar og innviðauppbygging

„Fjölga á störfum án staðsetningar hjá hinu opinbera. Þá þarf hið opinbera að sýna fordæmi hvað varðar ráðningu fólks í hlutastörf t.a.m. fyrir fólk sem býr við skerta starfsgetu. Halda þarf áfram innviðauppbyggingu um land allt og tryggja tækifæri til menntunar, rannsókna og nýsköpunar í öllum landshlutum.“

Endurskoða jarðalög

„Mikilvægt er að halda áfram endurskoðun jarðalaga. Stórt skref var stigið þegar sett voru stærðarmörk á land sem einn aðili getur keypt sér en halda þarf áfram. Skýra þarf lagaumhverfið þegar um er að ræða sameign á jörðum og þá þarf einnig að tryggja forkaupsrétt ríkisins þegar um er að ræða land þar sem eru náttúru- og menningarminjar.“

Leigumarkaður um land allt

„Halda þarf áfram uppbyggingu félagslegs húsnæðiskerfis, bæta í stofnframlög til uppbyggingar almennra íbúða og efla það kerfi til framtíðar. Þá þarf að efla og stækka leigufélagið Bríeti sem er í eigu ríkisins og ætlað er að koma á öflugum og sanngjörnum leigumarkaði um land allt. Halda þarf áfram að bæta réttindi leigjenda og bjóða upp á öfluga upplýsingagjöf til þeirra á mörgum tungumálum.“