Viðreisn: vill virkja á Vestfjörðum

Guðmundur Gunnarsson, oddviti Viðreisnar.

Bæjarins besta hefur sent oddvitum allra framboðslista í Norðvesturkjördæmi þrjár spurningar um stefnuna í þremur mikilvægum málum Vestfirðinga, fiskeldi, virkjunvatnsafls og vegagerð í Gufudalssveit.

Frambjóðendur verða, eftir atvikum, inntir frekar eftir afstöðu til annarra mála og gefst lesendum kostur á að senda spurningar til Bæjarins besta til einstakra framboða/frambjóðenda og mun vefurinn afla svara við þeim.

Svörin verða birt á næstu dögum eftir því sem þau berast og fyrstur svarar Guðmundur Gunnarsson, efsti maður á lista Viðreisnar.

Varðandi virkjanahugmyndir þá eru það Hvalárvirkjun og Austurgilsvirkjun sem eru í nýtingarflokki í Rammaáætlun og svo er það Vatnsfjarðarvirkjun sem Orkubú Vestfjarða hefur áhuga á að láta rannsaka frekar og jafnvel ráðast í.

Hver er afstaða þín og/eða flokksins til þessara virkjunarkosta?

Svar:

Mín afstaða til virkjanamála á Vestfjörðum er alveg skýr. Ég er þeirrar skoðunar að það verði ekki hjá því komist að auka framleiðsluna á svæðinu. Það er að mínu viti mun vænlegri kostur og ábyrgari framtíðarsýn en að fjórðungurinn reiði sig alfarið á innflutning orkunnar frá öðrum svæðum til að standa straum af atvinnuuppbyggingu og orkuskiptum. í mínum huga snúast raforkumál á Vestfjörðum ekki um einfalt val á milli tvöfaldrar línu inn á svæðið eða virkjunnar grænnar orku. Þetta snýst um að vinna markvisst að hvoru tveggja. Það er eina ábyrga framtíðarsýnin fyrir fjórðungurinn ef við ætlum raunverlulega að uppfylla þær alþjóðlegu skuldbindingar sem við höfum undirgengist. Treysta þannig um leið grunnstoðir samfélaganna. Ég hef fengið kynningu á hugmyndum Orkubús Vestfjarða á virkjun í Vatnsfirði. Mér finnst nálgunin bæði hófleg og skynsamleg.

Vegagerð í Gufudalssveit er hafin og á dögunum var lokið samningum við landeigendur. Málið hefur verið umdeilt og verið nærri 20 ár í deiglunni.

Munt þú eða flokkurinn styðja þetta mál eða leitast við að fara aðra leið?

Viðreisn styður þetta mál heilshugar, rétt eins og allar löngu tímabærar samgöngubætur í fjórðungnum. Við þurfum að hætta að meðhöndla úrbætur á vanræktu vegakerfi Vestfjarða eins og einhver illa ígrunduð og ónauðsynleg útgjöld. Líta grunnkerfin réttum augum og meðhöndla slíkar framkvæmdir sem þjóðhagslega hagkvæmar fjárfestingar sem skila þjóðarbúinu verðmætum. Stuðla þannig að heilbrigðari byggðadreifingu í landinu og sýna í verki að landsbyggðirnar skipti okkur máli. Við eigum ekki að sætta okkur við að íbúum þessa lands sé mismunað eftir búsetu.

Laxeldi í vestfirskum fjörðum er orðinn stór atvinnuvegur og getur á næstu árum tvöfaldast með nýjum framleiðsluleyfum.

Munt þú og/eða flokkurinn styðja við uppbygginguna og hver er stefnan varðandi þennan atvinnuveg?

Fiskeldi er gífurleg lyftistöng og mikilvægt að byggja það áfram upp sem sterka atvinnugrein í bland við aðrar á þeim svæðum sem nú þegar hafa fengið tilskilin leyfi. Við verðum þó að gæta þess að hagsmunir samfélaganna og umhverfisins verði frumforsendan. Ég er þeirrar skoðunar að það þurfi að ráðast strax í endurskoðun þeirra laga sem gilda um greinina. Tryggja samfélögunum og sveitarfélögunum beina tekjustofna til að standa straum af nauðsynlegri uppbyggingu og fjárfestingum. Núverandi fyrirkomulag með sérstökum fiskeldissjóði gerir fátt annað en að reka fleyg í þá samstöðu sem hefur ríkt á milli samfélaganna. Þar fyrir utan er ég enn gáttaður á þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið tekið tillit til frumkvöðlaréttar við lagasetninguna. Þar brást kerfið hrapalega og niðurstaðan skildi lítil rótgróin fyrirtæki, sem hafa unnið að hóflegri uppbyggingu um árabil, eftir í rykinu. Það eina sem farið var fram á var að jafnræðis væri gætt. Það mistókst og við verðum að vinda ofan af þeirri óheillaþróun. Það verður að ríkja sátt um greinina. Fólkið sem byggir afkomu sína á nálægð við verðmætar auðlindir verður að geta treyst því að hagsmuna þeirra sé gætt.

DEILA