Sóttvarnir í fiskeldi: heimsóknum óviðkomandi í eldisstöðvar skal haldið í lágmarki

Þjónustubáturinn Arnarnes í Patreksfjarðarhöfn. Mynd: Sigurður Pétursson.

Mikil áhersla er á sóttvarnir í löggjöf um fiskeldi og ýmis fyrirmæli sem snúa að því að torvelda að sjúkdómar berist í eldisstöðvar eða berist milli svæða. Gísli Jónsson, sérgreinadýralæknir hjá Matvælastofnun segir að þegar kemur að sóttvörnum og sértækari ráðstöfunum til að hindra smit og útbreiðslu smitsjúkdóma hjá fiskum (og reyndar öllum lagardýrum) þá hafi Íslendingar skuldbundið sig til að fylgja ákvæðum laga og reglugerða ESB (skv. ákvæðum EES samningsins) þar sem eru ýtarleg ákvæði. Til viðbótar þeim ákvæðum „höfum við heimild til að setja okkar eigin reglur sem aðlagaðar eru að íslenskum aðstæðum.“

Spurningar um sóttvarnarreglur í fiskeldi vakna eftir að upplýst var um að Veiga Grétarsdóttir fór á milli eldissvæða og einnig á milli fjarða með sama búnað, svo sem kajak og myndavél, og myndaði neðansjávar fisk í kvíum.

Gísli segir að ekki hafi verið farin sú leið t.d. að loka alfarið á samskipti með eldisfisk og tól og tæki á milli einstakra svæða, en gerðar eru ákveðnar ráðstafanir til að draga úr slíkum samskiptum. „Í því samhengi er ég t.d. að meina að loka ákveðin svæði af og þrýsta á um að þau séu alveg sjálfbær hvað varðar erfðaefni, seiði, mannskap, tól og tæki.“

Gísli Jónsson vísar til í 15. gr. reglugerðar nr. 300/2018, um velferð lagardýra, varnir gegn sjúkdómum og heilbrigðiseftirlit með eldisstöðvum, þar sem segir: „skal heimsóknum óviðkomandi aðila í eldisstöðvar haldið í lágmarki“ og segir það ákvæði sett einmitt til þess að draga úr smithættu.

„Það að bera með sér búnað sem dýft er ofan í sjókvíar og bera hann svo á milli óskyldra eldissvæða/fjarða til þess eins að dýfa honum aftur í nýjar kvíar er auðvitað skýlaust brot á þessum varnaðarreglum.“ segir Gísli Jónsson.

Í sömu grein er kveðið á um þetta:

„Í eldisstöðvum skulu vera búningsklefar þar sem starfsfólk, þjónustuaðilar og gestir geta skipt um hlífðarfatnað og skóbúnað. Gestum og eftirlitsaðilum skal afhentur hlífðar- og skófatnaður til notk­unar í klak- og eldisrými eldisstöðvar. Þar skal og vera hreinlætisaðstaða. Hlífðar- og skófatn­aður sem starfsmenn eldisstöðva nota í stöðinni skal ekki notaður utan hennar.“

Eva Dögg Jóhannesdóttir, starfsmaður Arctic Fish segir að sóttvarnir séu teknar alvarlega hjá fyrirtækinu enda mikið fjárhagslega undir ef út af ber. Hún segir að gestir sem vilji skoða kvíarnar og ganga út á þær verði að klæðast sérstökum hlífðarbúningum og stígvélum og eru auk þess í fylgd starfsfólks. Þá fari bátar fyrirtækisins ekki milli eldissvæða. Gestir sem koma að kvíunum en ganga ekki út á þær verða engu að síður að vera í sérstökum stígvélum og gæta að sóttvörnum.

DEILA